Innlent

„Það eru mjög miklar breytingar að eiga sér stað í geð­heil­brigðis­kerfinu“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Líneik Anna Sævarsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins.
Líneik Anna Sævarsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

„Það hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, aðgangur að sálfræðiþjónustu, bæði með teymum inni í heilsugæslunni og líka með samningum við sálfræðinga. Þannig að það hefur aukist. En eftirspurnin er hugsanlega meiri en þjónustan sem stendur til boða,“ segir Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis.

Líneik var í viðtali hjá Reykjavík síðdegis fyrr í dag og ræddi þar um stöðuna í geðheilbrigðismálum.

Líkt og fram í frétt Vísis í gær eykst notkun þunglyndislyfja enn og er aukningin hlutfallslega mun meiri hér á landi en annars staðar í heiminum. Einn af hverjum fjórum Íslendingum tekur inn lyf við þunglyndi eða kvíða. Nokkuð er liðið frá því samþykkt voru lög á Alþingi um að ríkið skyldi niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Aukin notkun þunglyndislyfja var rædd sérstaklega á Alþingi í gær. Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir svörum frá heilbrigðisráðherra varðandi þessa miklu notkun á þunglyndislyfjum. Sagði hún að skoða þyrfti rót vandans og grípa til umfangsmikilla aðgerða til að stemma stigu við vanlíðan þjóðarinnar. Sagði hún jafnframt að skýringar um að notkun þunglyndislyfja hafi í aukist í kjölfar geðheilbrigðisátaks veki furðu.

Forvarnir og heilsulæsi mikilvægur grunnur

Í samtali við Reykjavík síðdegis segir Líneik Anna að mjög miklar breytingar hafi átt sér stað í geðheilbrigðiskerfinu.

„Til dæmis í haust var gerður nýr samningur um sálfræðiþjónustu. Það var fyrsti samningurinn sem snýr að niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu fyrir fullorðna. Meðal annars var opnað þar á viðtöl í gegnum fjarfundabúnað. Það var samþykkt ný stefna í geðheilbrigðismálum á þinginu í vor, sem verið er að hrinda í framkvæmd.“

Þá segir Líneik að forvarnir og heilsulæsi séu liður í að undirbyggja góða lýðheilsu.

„En við þurfum líka að meta svolítið í framhaldinu hvað það er sem er að skila okkar mestum árangri.“

Munum við sjá það á næstunni að sálfræðiþjónustan verði niðurgreidd, eins og lagt var upp með þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma?

„Það hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, aðgangur að sálfræðiþjónustu, bæði með teymum inni í heilsugæslunni og líka með samningum við sálfræðinga. Þannig að það hefur aukist. En eftirspurnin er hugsanlega meiri en þjónustan sem stendur til boða.“

En þjónustan er dýr og ekki á færi allra að greiða fyrir hana?

Aðgengið er misjafnt, ennþá, en það hefur samt aukist. Og það er hafin niðurgreiðsla á sálfræðiþjónustu. Ég átta mig ekki á til hversu stórs hóps hún nær, en hún er sannarlega til staðar, niðurgreiðslan fyrir ákveðna hópa.

Er þetta sumsé afmarkað? Að ákveðnir hópar geta fengið niðurgreiðslu en aðrir ekki?

„Ég bara veit að það er kominn á samningur, ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það er afmarkað. En það er kominn á samningur um niðurgreiðslu fyrir sálfræðiþjónustu. En að einhverju leyti snýr þetta að því að það eru ekki sálfræðingar til staðar alls staðar.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×