Sport

Svíar og Norð­menn ein­oka verð­launa­sætin á heims­meistara­mótinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Simen Kruger fagnar þegar hann kemur í mark í 30 km göngunni í dag.
Simen Kruger fagnar þegar hann kemur í mark í 30 km göngunni í dag. Vísir/Getty

Heimsmeistaramótið í skíðagöngu fer nú fram í Planica í Slóveníu. Eftir fyrstu keppnisgreinarnar hafa nágrannaþjóðirnar Norðmenn og Svíar svo gott sem einokað verðlaunasætin.

Mótið hófst í gær með sprettgöngu karla og kvenna. Í kvennaflokki var búist við góðum árangri Svía sem hafa átt góðu gengi að fagna í greininni síðustu misserin enda voru fjórir keppendur af sex í úrslitagöngunni frá Svíþjóð.

Á endanum voru það líka sænsku konurnar sem röðuðu sér í fjögur efstu sætin. Jonna Sundling tryggði sér heimsmeistaratitilinn nokkuð örugglega og Emma Ribom og Maja Dahlquist fylgdu í kjölfarið og hirtu silfur- og bronsverðlaun. Linn Svahn endaði í fjórða sætinu en hún er nýkomin til baka eftir alvarleg meiðsli en fyrir meiðslin raðaði hún inn gullverðlaunum í sprettgöngu.

Jonna Sundling og Emma Ribom fagna verðlaunum sínum í sprettgöngu gærdagsins.Vísir/Getty

Í karlaflokki var það Johannes Klæbo sem vann örugglega en þetta er í þriðja sinn í röð sem Klæbo verður heimsmeistari í sprettöngu. Landi hans Pål Golberg varð í öðru sæti og Frakkinn Jules Chappaz í þriðja sæti.

Í dag var síðan keppt í 30 kílómetra skiptigöngu karla þar sem fyrst eru gengnir 15 kílómetrar með klassískri aðferð en á seinni 15 kílómetrunum er frjáls aðferð.

Nú var komið að Norðmönnum að eigna sér öll verðlaunin. Simen Kruger kom fyrstur í mark, hans fyrstu gullverðlaun á heimsmeistaramóti en hann er Ólympíumeistari í þessari sömu grein frá árinu 2018. Johannes Klæbo tryggði sér silfrið og Sjur Rothe fékk bronsið eftir mikla baráttu þeirra tveggja í lokin.

Snorri Einarsson kom í mark í 28.sæti sem er hans besti árangur á stórmóti.

Á morgun er keppt í 15 kílómetra göngu kvenna og verður fróðlegt að sjá hvort nágrannaþjóðirnar haldi áfram að raða sér á verðlaunapall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×