Þegar tímabilinu í NFL deildinni lauk var framtíð Rodgers eitt af heitustu umræðuefnunum ef frá er tekið meistaralið Kansas City Chiefs. Það styttist í að hinn 39 ára gamli leikstjórnandi leggi skóna á hilluna en til að komast að ákvörðun ákvað hann að skrá sig inn á hugleiðslusetrið Sky Cave Retreats.
Þar ætlaði Rodgers að vera í fjóra daga og fjórar nætur en samkvæmt eiganda setursins þá skráði hann sig út eftir aðeins þrjá daga. Dögunum þremur eyddi hann í 28 fermetra herbergi með engri náttúrulegri dagsbirtu. Hann var með rúm, dýnu til að hugleiða og baðherbergi. Þá var komið með mat til hans.
Aaron Rodgers has ended his 'darkness retreat' according to the owner of the facility, per @Xuan_Thai pic.twitter.com/6BgNrPS6e1
— Bleacher Report (@BleacherReport) February 23, 2023
Enn er óvitað hvort Rodgers ætli að halda áfram eða hvort hann ætli að leggja skóna á hilluna. Reikna má með miklu húllumhæ þegar hann tilkynnir ákvörðun sína. Það sem við vitum er að Rodgers mun þéna 60 milljónir Bandaríkjadala [8,7 milljarðar íslenskra króna] á næstu leiktíð.
Ef það fer svo að hann verði áfram í deildinni er alls óvíst hvort hann verði áfram leikmaður Green Bay en liðið virðist tilbúið að losa sig við manninn sem hefur stýrt liðinu síðan 2008. New York Jets hefur áhuga að fá Rodgers í sínar raðir og gæti því verið að hann feti í fótspor forvera síns, Brett Favre. Honum var á sínum tíma skipt til New York Jets eftir að hann ákvað að hætta við að hætta.