Körfubolti

Vonast til að hægt sé að gera Stjörnu­leikinn sam­keppnis­hæfari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jaylen Brown í Stjörnuleiknum.
Jaylen Brown í Stjörnuleiknum. Alex Goodlett/Getty Images

Jaylen Brown horfði á Jayson Tatum, samherja sinn hjá Boston Celtics í NBA-deildinni í körfubolta, setja stigamet í Stjörnuleik deildarinnar í nótt. Eftir leik sagðist hann vonast til að hægt væri að gera leikinn samkeppnishæfari.

Stjörnuleikur NBA deildarinnar fór fram síðustu nótt og að venju var sóknarleikur í hávegum hafður. Ef til vill meira en vanalega en lið Giannis Antetokounmpo vann 184-175 sigur á liði LeBrons James.

Tatum skoraði 55 stig og setti þar með stigamet en aðeins tveir aðrir leikmenn hafa skorað yfir 50 stig í Stjörnuleiknum. Anthony Davis skoraði 52 stig árið 2017 og Stephen Curry skoraði 50 stig á síðasta ári. Brown sjálfur skoraði svo 35 stig á 25 mínútum en hann er með 26.5 stig að meðaltali í leik á þessari leiktíð.

„Alvöru körfubolti er öðruvísi. Við þurfum að finna leið til að gera leikinn samkeppnishæfari en það eina sem skiptir máli er að aðdáendur skemmti sér,“ sagði Brown eftir leik.

Líkt og áður þá eru menn að passa sig að meiða sig ekki í Stjörnuleiknum og úr verður leikur þar sem mikið er skorað og lítil sem engin vörn spiluð.

Brown getur nú farið að einbeita sér að því að komast aftur í úrslit NBA með Boston Celtics en liðið tapaði fyrir Golden State Warriors í úrslitum á síðustu leiktíð. Boston er sem stendur í 1. sæti Austurdeildar með 42 sigra og 17 töp eftir 59 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×