Körfubolti

Jay­son Tatum setti stiga­met í Stjörnu­leiknum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jayson Tatum með verðlaun sín fyrir að vera kosinn mikilvægasti leikmaður Stjörnuleiks NBA-deildarinnar í ár.
Jayson Tatum með verðlaun sín fyrir að vera kosinn mikilvægasti leikmaður Stjörnuleiks NBA-deildarinnar í ár. Getty/Tim Nwachukwu

Boston Celtics leikmaðurinn Jayson Tatum fór í mikið stuð í Stjörnuleik NBA-deildarinnar í nótt þar sem lið Giannis Antetokounmpo vann 184-175 sigur á liði LeBrons James.

Tatum stóð á endanum uppi með 55 stig og nýtt stigamet í Stjörnuleik NBA en það var áður í eigu Anthony Davis sem skoraði 52 stig árið 2017. Aðeins einn annar hefur skorað yfir fimmtíu stig í Stjörnuleik en það var Stephen Curry sem skoraði 50 stig í leiknum í fyrra.

Fyrirliðarnir spiluðu þó mun minna með liðum sínum en búist var við. Giannis Antetokounmpo spilaði bara í eina sókn vegna úlnliðsmeiðsla og LeBron James var bara með í fyrri hálfleiknum vegna handarmeiðsla auk þess sem hann var væntanlega að spara sig fyrir lokasprettinn þar sem Los Angeles Lakers þar á öllu að halda til þess að komast í úrslitakeppnina.

Þetta var í fyrsta sinn síðan að fyrirliðarnir fóru að kjósa í lið þar sem liðið hans LeBrons James tapar leiknum.

Tatum gerði útslagið fyrir lið Giannis og var að sjálfsögðu kosinn mikilvægasti leikmaður leiksins.

Hann hitti úr 22 af 31 skoti sínu þar af 10 af 18 þriggja stiga skotum. Tatum skoraði 27 af 55 stigum sínum í þriðja leikhlutanum.

Donovan Mitchell átti líka mjög góðan leik en hann var með 40 stig og 10 stoðsendingar.

Annar Boson maður var stigahæstur í hinu liðinu því Jaylen Brown skoraði 35 stig á 25 mínútum fyrir liðið hans Lebrons og tók líka 14 fráköst. Þeir Joel Embiid og Kyrie Irving skoruðu báðir 32 stig og Irving var einnig með 15 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×