Sport

Anníe Mist: Ég trúi því að ég geti unnið heimsleikana í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir snýr aftur í einstaklingskeppnina á heimsleikunum í CrossFit.
Anníe Mist Þórisdóttir snýr aftur í einstaklingskeppnina á heimsleikunum í CrossFit. Getty/ Dario Cantatore

Anníe Mist Þórisdóttir mun ekki keppa í liðakeppni heimsleikanna í CrossFit í ár heldur snúa aftur í einstaklingskeppnina.

Anníe Mist staðfesti fréttirnar í viðtali við Talking Elite Fitness.

Anníe hefur tvisvar orðið heimsmeistari og sex sinnum komist á verðlaunapall á heimsleikunum.

Anníe og félagar hennar í CrossFit Reykjavíkur voru hársbreidd frá því að ná verðlaunasæti á síðustu heimsleikum en enduðu í fjórða sæti.

„Ég get sagt það fullum hálsi að ég trúi því að ég geti unnið heimsleikana í ár,“ sagði Anníe Mist Þórisdóttir í viðtalinu. Það er meiri spenna fyrir kvennakeppninni í ár því sexfaldi heimsmeistarinn Tia-Clair Toomey er ófrísk og verður ekki með.

„Ég get líka staðfest það að ég mun ekki keppa í liðakeppninni í ár,“ sagði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.

Anníe Mist varð í þriðja sæti á síðustu heimsleikunum sínum þar sem hún keppti í einstaklingskeppni en það var á leikunum 2021. Hún náði því innan við ári eftir að hafa eignast dóttur sína Freyju Mist.

Anníe keppti fyrst á heimsleikunum árið 2009 og gæti keppt á sínum tólftu heimsleikum sem einstaklingur vinni hún sér þátttökurétt þar. Það væru líka liðin fjórtán ár frá hennar fyrstu heimsleikum sem væri magnað afrek út af fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×