Sport

Fagnaði af­mæli með verð­launum og glæsi­legu meti

Sindri Sverrisson skrifar
Irma Gunnarsdóttir hefur verið að gera frábæra hluti í vetur.
Irma Gunnarsdóttir hefur verið að gera frábæra hluti í vetur. FRÍ

Irma Gunnarsdóttir úr FH heldur áfram að gera góða hluti á innanhússtímabilinu í frjálsum íþróttum en hún setti nýtt Íslandsmet í þrístökki á Nike-mótaröðinni í Kaplakrika í gærkvöld.

Irma sló eigið Íslandsmet í þrístökki í gær með því að stökkva 13,36 metra en fyrra metið hennar var 13,13 metrar og hún bætti sig því um 23 sentímetra.

Stökkið var sömuleiðis lengra en Íslandsmet Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur utanhúss, sem er 13,18 metrar, og verður spennandi að fylgjast með Irmu í sumar.

Irma átti 25 ára afmæli um síðustu helgi og hefur því haft ærna ástæðu til að fagna síðustu daga. Hún vann einnig gullverðlaun um afmælishelgina því þá bar hún sigur úr býtum í langstökki á Reykjavíkurleikunum.

Irma, sem er í íslenska hópnum sem keppir á Norðurlandameistaramótinu í Karlstad í Svíþjóð á sunnudaginn, hefur lengst stokkið 6,36 metra í langstökki í ár. Það er næstlengsta stökk íslenskra kvenna frá upphafi en aðeins Hafdís Sigurðardóttir, sem verður einnig með á NM, á Íslandsmetið með 6,54 metra stökki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×