Erlent

Mótmæltu eftir grimmilegt morð á sex lögregluþjónum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vopnaðir lögregluþjónar á mótmælum í gær.
Vopnaðir lögregluþjónar á mótmælum í gær. AP/Odelyn Joseph

Rúmlega hundrað núverandi og fyrrverandi lögregluþjónar mótmæltu á götum Port-au-Prince, höfuðborgar Haítí, í gær. Þeir lokuðu götum, skutu út í loftið og brutu sér leið inn í flugvöll borgarinnar og heimili forsætisráðherra landsins til að mótmæla því hve margir lögregluþjónar hafa verið skotnir til bana af meðlimum glæpagengja að undanförnu.

Minnst tíu lögregluþjónar hafa verið skotnir til bana á undanfarinni viku samkvæmt upplýsingum sem AP fréttaveitan fékk hjá lögreglunni. Einn til viðbótar er alvarlega særður og annars er saknað.

Myndbönd hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum á Haítí sem sýna nakin lík sex lögregluþjóna sem skotnir voru af glæpamönnum. Annað myndband sýnir tvo grímuklædda menn reykja sígarettur með afskornum höndum og fótum mannanna.

Líkin eru enn í höndum meðlima gengisins Gan Grif.

Óreiða hefur lengi einkennt Haítí en hún hefur náð nýjum hæðum frá því Jovenelle Moise, forseti landsins, var myrtur á heimili sínu árið 2021.

Sjá einnig: Ákæra fyrrverandi þingmann vegna morðsins á forsetanum

Ariel Henry, sem leiðir núverandi ríkisstjórn Haítí, hefur kallað eftir því að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að hermenn verði sendir til eyríkisins til að koma þar á lög og reglu. Hingað til hefur enginn verið tilbúinn til þess.

Sendiherra Haítí gagnvart Sameinuðu þjóðunum kallaði síðast eftir aðstoð í dag en verið er að ræða mögulegt inngrip á Haítí.

Henry var aldrei kjörinn í embætti en kosningar hafa ekki verið haldnar á Haítí um langt skeið. Til stóð að halda kosningar í nóvember en Henry rak alla meðlimi ráð sem skipuleggur kosningar landsins.

Þungvopnaðir glæpamenn reyndu að myrða hann í fyrra þegar verið var að halda upp á viðburð til að marka sjálfstæði ríkisins.

Glæpagengi Haítí eru nánast hömlulaus og skipta Port-au-Prince og stórum hlutum landsins sín á milli. Í fyrra var talið að um það bil níu þúsund lögregluþjónar hafi starfað á Haítí, sem er hlutfallslega mjög lítið miðað við að íbúar landsins eru rúmlega ellefu milljónir. Eins og lögregluþjónarnir, krefjast glæpamenn þess einnig að Henry segi af sér.

Glæpagengi Haítí er bæði mun fjölmennari og betur búin en lögregla landsins. Stjórnmálamenn hafa í gegnum árin dælt peningum í mismunandi gengi og beitt þeim gegn pólitískum andstæðingum sínum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×