Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 76-80 | Valsmenn höfðu betur í framlengdum leik

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur - Stjarnan. Meistari meistaranna karla. Vetur 2022-2023. Körfubolti.
Valur - Stjarnan. Meistari meistaranna karla. Vetur 2022-2023. Körfubolti. Vísir/Bára

Valur vann nauman fjögurra stiga sigur er liðið sótti Stjörnuna heim í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 76-80, en grípa þurfti til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Stjarnan mætti nánast með splunkunýtt lið til leiks í kvöld. Stjarnan hafði misst Robert Turner og Julius Jucikas. Til að fylla þeirra skarð náði Stjarnan í Dag Kár Jónsson frá KR, William Gutenius sem er sænskur leikmaður og spilaði síðast í Belgíu og Ahmad Gilbert á láni frá Hrunamönnum.

Stjarnan fór hægt af stað. Heimamenn voru í vandræðum með að finna takt sóknarlega og gerðu ekki stig í tæplega fimm mínútur en þá hafði Valur gert tólf stig í röð. Júlíus Orri Ágústsson endaði fyrsta leikhluta á að setja flautukörfu fyrir aftan miðju og minnkaði forskot Vals niður í níu stig.

Valur skrúfaði upp hraðann í öðrum leikhluta og fór af meiri krafti á hringinn. Valur refsaði heimamönnum fyrir hver mistökin og Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, tók leikhlé eftir þrjár körfur í röð hjá gestunum.

Friðrik Anton Jónsson átti góða rispu þegar hann gerði fimm stig í röð fyrir heimamenn og minnkaði forskot Vals niður í átta stig þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik.

Staðan í hálfleik var 31-40

Stjarnan tók frumkvæðið í seinni hálfleik og náði að minnka forskot Vals niður í eitt stig á tæplega þremur mínútum.

Eftir spræka byrjun í seinni hálfleik fór að halla undan fæti hjá Stjörnunni og gestirnir gengu á lagið. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, reyndi að breyta gangi leiksins með því að taka leikhlé en Valur komst þrettán stigum yfir en góður endasprettur heimamanna í þriðja leikhluta gerði það að verkum að Valur var aðeins sjö stigum yfir þegar haldið var í síðustu lotu.

Fjórði leikhluti var stál í stál. Þegar Stjarnan var við það að taka leikinn í sínar hendur þá gerði Valur fimm stig í sömu sókninni þar sem Hjálmar Stefánsson fékk körfu góða en klikkaði á vítinu en náði frákastinu og skoraði. Í milli tíðinni fékk Stjarnan á sig tæknivillu og Kári Jónsson hitti úr víti.

Frank Booker fékk lokaskotið í fjórða leikhluta þar sem hann hefði getað unnið leikinn en klikkaði á nokkuð opnu þriggja stiga skoti beint á móti körfunni og framlengja þurfti leikinn eftir að staðan var 71-71 þegar fjórða leikhluta lauk.

Valur tók frumkvæðið í framlengingu og þegar tæplega 120 sekúndur voru eftir var Valur í bílstjórasætinu fjórum stigum yfir 71-75. Leikurinn endaði á vítalínunni þar sem Daði Lár Jónsson kláraði uppeldisfélagið sitt endanlega og Valur vann fjögurra stiga sigur 76-80.

Af hverju vann Valur?

Stjarnan á hrós skilið fyrir að hafa farið með leikinn alla leið í framlengingu en Valur var yfir nánast allan leikinn. Í framlengingunni átti Valur fyrsta höggið og komst fjórum stigum yfir þegar tæplega tvær mínútur voru eftir. Valur náði að halda leikinn út að lokum og vann fjögurra stiga sigur.

Hverjir stóðu upp úr?

Kári Jónsson var allt í öllu hjá Val. Kári var stigahæstur hjá Val með 23 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Kári var einnig framlagshæstur á vellinum með 26 framlagspunkta.

Hlynur Bæringsson minnti á sig í kvöld. Hlynur gerði 12 stig, tók 15 fráköst og endaði með 24 framlagspunkta.

Hvað gekk illa?

Ahmad Gilbert lék sinn fyrsta leik með Stjörnunni í kvöld. Stuðningsfólk Stjörnunnar munu svo sannarlega vona að hann muni spila betur þegar hann kemur aftur á lán til Stjörnunnar í næstu viku til að spila í VÍS-bikarnum. Gilbert spilaði í 15 mínútur, fékk á sig fimm villur og tók eitt frákast.

Hvað gerist næst?

VÍS-bikarinn er næst á dagskrá hjá liðunum þar sem Valur mætir Hetti klukkan 20:00 og Stjarnan mætir Keflavík klukkan 17:15.

Arnar: Ekkert óheiðarlegt við lánssamninginn við Gilbert 

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir tap og hélt langa ræðu um Ahmad Gilbert og lánssamning hans til Stjörnunnar.

„Það var mjög sárt að tapa. Mér fannst orkan í liðinu góð og menn reyndu að gera hlutina saman þrátt að hafa æft lítið saman. Mér fannst við gera vel gegn langbesta liði landsins þrátt fyrir að Færeyingurinn þeirra hafi verið meiddur,“ sagði Arnar Guðjónsson eftir tap gegn Val.

„Við gerðum vel í að koma til baka. Ég var ánægður með hvernig við spiluðum eftir að við lentum undir og ég er spenntur fyrir þessum leikmannahópi sem ég er kominn með.“

Ahmad Gilbert var mikið í umræðunni í aðdraganda leiks þar sem Stjörnunni tókst að fá hann á lán bæði í deild og bikar. Gilbert mun allt í allt gera fjögur félagsskipti milli Stjörnunnar og Hrunamanna.

„Mér finnst mjög skrítið að þetta sé hægt og reglan er skrítin. Mér finnst líka skrítin regla að Keflavík og Breiðablik geti verið með fimm útlendinga, mér finnst líka skrítin regla að Haukar hafi unnið Tindastól í bikarnum og mér finnst þetta allt mjög furðulegt.“

„Reglan er þannig að hann má þetta og við megum þetta. Það er ekkert óheiðarlegt við eitt né neitt í þessu heldur eru þetta íslensk vinnulöggjöf og reglur KKÍ.“

„Mér þætti eðlilegt ef reglurnar væru þannig að ef þú skiptir um lið mættirðu ekki skipta aftur fyrr en eftir 30 daga. Mér finnst þriggja ára reglan algjört bíó. Mér er alveg sama um fjölda útlendinga og þessi þriggja ára regla er algjör trúða sýning. Það eru leikmenn sem félög vildu ekki sjá hjá sér en eftir formannafund vildu þeir halda þeim eftir að þeir fréttu að þeir yrðu íslendingar og það er miklu alvarlega.“

Arnar hélt áfram að tala um félagsskipti Ahmad Gilbert og sagði að ef menn geta lesið sér til gagns þá er ekkert sem bannar þetta.

„Menn sem geta lesið sér til gagns, geta lesið um að Gilbert mátti spila með Stjörnunni í kvöld þar sem pappírunum var skilað inn og hann má spila með Hrunamönnum á morgun. Ég ætla að vera ósammála að þetta sé siðferðilega rangt og niðurlæging á íþróttina.“

Aðspurður hvaða Kana Stjarnan muni sækja eftir VÍS-bikarinn þá sagði Arnar að það væri búið að semja við annan Bandaríkjamann en vildi ekki gefa út hver það yrði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira