Um­fjöllun og við­töl: Breiða­blik - ÍR 91-77 | Öruggur sigur Breiða­bliks í botns­lagnum

Siggeir Ævarsson skrifar
Birgit Ósk Snorradóttir skoraði 22 stig í kvöld.
Birgit Ósk Snorradóttir skoraði 22 stig í kvöld. Vísir/Vilhelm

Breiðablik vann ÍR í botnslag Subway deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Sigur Breiðabliks þýðir að ÍR er enn að leita að sínum fyrstu stigum á tímabilinu.

Það var boðið uppá botnslag í Smáranum í kvöld þar sem heimakonur tóku á móti ÍR í Subway-deild kvenna. ÍR-ingar án sigurs fyrir kvöldið og eygðu mögulega von um að landa fyrsta sigri tímabilsins gegn vængbrotnu liði Breiðabliks.

Kvöldið leit ágætlega út fyrir ÍR framan af, ekki síst fyrir tilstilli Aníku Hjálmarsdóttur, sem skoraði 6 af 14 stigum liðsins í fyrsta leikhluta, og munaði aðeins 3 stigum á liðinum eftir 1. leikhluta. Undir lok 2. leikhluta ákvað Sanja Orozovic að þetta væri komið gott og skoraði næstu 12 stig Blika og munurinn allt í einu orðinn 13 stig þegar flautað var til hálfleiks.

Leikmenn ÍR voru þó ekki dauðar úr öllum æðum og mættu mjög ákveðnar til leiks í upphafi seinni hálfleiks. Jamie Cherry skoraði 4 fyrstu stig hálfleiksins en Blikar voru fljótir að svara og fljótlega var munurinn kominn upp í 18 stig og brött brekka framundan fyrir gestina. Það var engu líkara en þetta svar Blika hefði slegið allan vind úr ÍR-ingum sem voru aldrei sérlega líklegar til að komast inn í leikinn aftur að neinu marki.

Þær héldu þó vissulega áfram að reyna og leikurinn leysist upp í hálfgerða vitleysu á köflum undir lokin þar sem boðið var uppá ansi skrautlega takta á báðum endum vallarins. Blikarnir voru þó einfaldlega sterkari á svellinu í kvöld, stóðu af sér öll áhlaup og tilraunir til áhlaupa frá ÍR og lönduðu að lokum öruggum sigri, lokatölur 91-77.

Af hverju vann Breiðablik?

Þær voru í bílstjórasætinu frá upphafi og létu aldrei bilbug á sér finna. Þær spiluðu af krafti og sannfæringu í svo til 40 mínútur og létu engar tilraunir ÍR til að hleypa leiknum upp á sig fá. Skotnýting þeirra var mjög góð og flæðið í sóknarleiknum til fyrirmyndar á köflum.

Hvað gekk illa?

Sjálfstraust ÍR-inga er ekki beinlínis í hæstu hæðum þessa dagana, mælist mögulega í mínus. Það sást greinilega á vellinum þar sem þær gerðu of mörg klaufaleg mistök og skotnýtingin döpur. Þær virtust hreinlega ekki hafa mikla trú á verkefninu, og ef hún var til staðar þá gufaði hún hratt upp.

Hverjar stóðu uppúr?

Hjá Blikum komu stigin svo til úr öllum áttum, liðið spilaði virkilega vel saman sóknarlega og þrír leikmenn fóru yfir 20 stigin. Fleira má bíta en feita steik. Sanja Orozovic leiddi stigaskorið með 24 og tók alltaf af skarið þegar kallið kom. Hún var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu og reif niður 12 fráköst. Þá bætti Birgit Ósk við 22 stigum (5/7 í þristum) og Anna Soffía setti 20 (4/8 í þristum) og bætti við 8 fráköstum.

Hjá ÍR var Jamie Cherry stigahæst með 20 stig, en hefði að ósekju mátt taka fleiri skot og oftar af skarið. Greeta Uprus kom næst með 17 stig en hún byrjaði á bekknum í kvöld þar sem hún hefur eytt síðustu dögum með flensu. Þá má ekki gleyma hlut Aníku Hjálmarsdóttur sem skoraði 15 stig og tók 10 fráköst, en það var einna helst henni að þakka að leikurinn var jafn í upphafi.

Hvað gerist næst?

Liðin eru bæði komin í tveggja vikna jólafrí og eiga næst leiki 28. desember. Þá sækja Blikar Hauka heim og ÍR tekur á móti Grindavík.

Við vissum að þetta yrði erfiður leikur

Jeremy Smith þjálfari Breiðabliks var ánægðar með sínar konur í leikslok og að hans liði hefði loks tekist að spila heilan góðan leik þar sem slæmu kaflarnir voru stuttir og fáir.

„Við spiluðum á fullu gasi allar 40 mínúturnar. Í síðustu tveimur leikjum komu slæmir kaflar þar sem við misstum dampinn of lengi. Mér fannst það gerast líka í upphafi þriðja leikhluta í kvöld, en við sýndum góðan baráttuanda og snérum þessu hratt við. Í þetta skiptið voru slæmu kaflarnir ekki 20 mínútur, heldur bara í 2-3 mínútur. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Ég sagði stelpunum að þetta yrði ekki sprettur heldur maraþon. Fyrsti leikhlutinn spilaðist alveg eins og ég reiknaði með, ég vissi að þetta yrði jafnt í byrjun en ég minnti mínar konur bara á að halda fókus og missa ekki dampinn.“

Stigaskorið dreifðist vel hjá Blikum í kvöld, en Jeremy sagði að hans konur væru einfaldlega að uppskera eins og þær hefðu sáð á æfingum síðustu daga.

„Ég er alltaf að minna þær á að vera „aggressívar“ og spila með sjálfstraustið í botni, og ekki gleyma að njóta þess sem maður hefur unnið fyrir. Við erum búnar að æfa af krafti í kvöld og þá þarf maður að muna að verðlauna sjálfan sig fyrir alla vinnuna sem maður hefur lagt í púkkið í undirbúningnum. Stelpunum leið vel á vellinum í kvöld, fullar af sjálfstrausti og höfðu gaman af hlutunum.“

Þessi sigur hlýtur að gefa móralnum í liðinu góða vítamínssprautu?

„Já ég held það. Eins og ég hef áður sagt, við erum að reyna að byggja ofan á það sem við erum að vinna í alla daga. Eins lengi og við erum að bæta okkur, þó það sé ekki nema 1% bæting í einu, þá er ég sáttur.“

Aðspurður að lokum hvort hann væri bjartsýnn á framhaldið eftir þennan sigur og þessa frammistöðu sagði Jeremy að hann væri alltaf bjartsýnn.

„Hvern einasta dag sem ég stíg inná körfuboltavöllinn! Þessar stelpur eru hópurinn sem við erum að keyra liðið okkar á. Ég er búinn að skuldbinda mig til að þjálfa þetta lið og ég mun alltaf gefa 100%. Meira get ég ekki gefið en ég geri þá kröfu að þær geri slíkt hið sama.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira