Handbolti

Gat farið í finnska herinn en endaði í finnska handboltalandsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fyrir utan finnska sendiráðið við Túngötu.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson fyrir utan finnska sendiráðið við Túngötu. vísir/ívar

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, er spenntur fyrir því að fá tækifæri með finnska handboltalandsliðinu. Hann leikur með því á æfingamóti í Lettlandi í byrjun janúar.

„Ég hef alltaf verið með tvöfalt ríkisfang því amma mín í föðurætt var finnsk. Þar af leiðandi hefur þetta alltaf verið möguleiki og fyrst núna ákvað ég að prufa þetta. Í kjölfarið voru samskipti, þeim leist ágætlega á mig þannig að stefnan er að fara út fyrstu helgina í janúar,“ sagði Þorsteinn í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakkanum.

Þorsteinn segist ekki hafa neitt sérstaklega mikla tengingu við Finnland. „Ég fór til Finnlands þegar ég var krakki en ekkert nýlega,“ sagði Þorsteinn og bætti því við að hann kynni nokkur orð í finnsku.

Þrátt fyrir takmarkaða tengingu við Finnland bauðst honum að sinna herskyldu þar í landi eftir að hann varð átján ára.

„Sem betur fer er engin herskylda sem ég þarf að sinna. En það stóð til boða þegar ég var átján ára. Þá hefði ég getað farið í herinn en áhuginn var ekki til staðar. En það er einhvers konar herskylda að spila með landsliðinu,“ sagði Þorsteinn.

Hann vonast til að komast í finnska hópinn sem tekur þátt í undankeppni EM og leyfir sér að dreyma að það gæti opnað einhverjar dyr fyrir hann inn í atvinnumennsku.

„Ef ég verð með þeim spilar maður á móti Noregi, Slóvakíu og Serbíu. Ef maður á sinn dag á móti einhverju góðu og sterku landsliði getur það kannski komið manni eitthvað lengra. En ég ætla að byrja að taka þetta æfingamót og sjá hvað er næst,“ sagði Þorsteinn. Finnland hefur tapað báðum leikjum sínum í undankeppni EM stórt; 34-24 fyrir Serbíu og 35-22 fyrir Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×