Handbolti

Þorsteinn Gauti valinn í finnska landsliðið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorsteinn Gauti er með tvöfalt ríkisfang í gegnum föðurömmu sína en hún var finnsk.
Þorsteinn Gauti er með tvöfalt ríkisfang í gegnum föðurömmu sína en hún var finnsk. Vísir/Hulda Margrét

Framarinn Þorsteinn Gauti Hjálmarsson hefur óvænt verið valinn í finnska landsliðið í handknattleik en þetta var tilkynnt á Facebook síðu Fram í dag.

Þorsteinn Gauti er uppalinn Framari sem lék með Aftureldingu um skeið en gekk til liðs við Framara á ný í fyrrasumar. Fréttin um valið á Þorsteini Gauta í finnska landsliðið hefur eflaust komið mörgum á óvart enda líklega flestir ekki haft hugmynd um finnskar rætur hans.

Föðuramma Þorsteins Gauta var hins vegar finnsk og þess vegna var hægt að sækja um tvöfalt ríkisfang fyrir hann þegar hann var ungur.

Í færslunni á Facebook síðu Fram er greint frá því að Þorsteinn Gauti hafi komið þeim skilaboðum áleiðis út til Finnlands að hann væri til í að skoða möguleikann á því að spila fyrir landsliðið. Þá fór boltinn að rúlla.

„Ég fékk boð að mæta til æfinga í janúar og taka þátt í æfingamóti í Lettlandi fyrstu helgina í janúar. Ég reikna með að ég og þeir taki stöðuna eftir mótið og skoði framhaldið,“ segir Þorsteinn Gauti í viðtalinu sem birtist á Facebook síðu Framara.

Hann segist ekki þekkja mikið til liðsins eða styrkleika þess.

„Hins vegar verður gaman og spennandi að máta sig við þá og aðra í þessu æfingamóti á nýju ári.“

Finnland hefur einu sinni tekið þátt í stórmóti í handknattleik en það var árið 1958. Liðið lék tvo leiki núna í október í undankeppni Evrópumótsins sem fer fram árið 2024. Finnar töpuðu þá 34-24 fyrir Serbíu og 35-22 fyrir Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×