Umfjöllun, viðtöl og myndir: ÍR - Valur 77-83 | Valsmenn kláruðu naglbítinn á seiglunni

Siggeir Ævarsson skrifar
Valsmenn unnu nauman sigur í Skógarselinu í kvöld.
Valsmenn unnu nauman sigur í Skógarselinu í kvöld. Vísir/Vilhelm

ÍR-ingar tóku á móti Íslandsmeisturum Vals í hinu nýja og glæsilega íþróttahúsi í Skógarseli í kvöld. Fyrir leikinn voru ÍR búnir að tengja saman tvo sigra í röð, en Valsmenn fengu skell í síðustu umferð þegar þeir töpuðu með 25 stigum gegn Keflavík.

Það var stemning á pöllunum.Vísir/Vilhelm

Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun en ÍR-ingar voru ekki að hitta vel, sem Ísak Wíum talaði sérstaklega um fyrir leik að væri kominn tími á. Á sama tíma voru Valsmenn í góðum takti sóknarlega og eiginlega hálf ótrúlegt að aðeins hafi munað 11 stigum í hálfeik. Aðeins 3 leikmenn ÍR voru búnir að skora þegar hálfleikurinn var nánast á enda, og þar af var Collin Pryor með rúman helming stiganna, 15 af 29. Staðan í hálfleik 29-40 gestunum í vil, sem virtust ekki þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum.

Mögulega urðu Valsmenn of værukærir eftir fyrri hálfleikinn, en ÍR byrjuðu seinni hálfleik á 15-3 áhlaupi og allt í einu var þessi leikur orðinn æsispennandi. ÍR unnu leikhlutann að lokum 28-17, og þar af leiðandi allt jafnt fyrir lokaátökin, 57-57.

Spennan hélst í leiknum allt fram á lokasekúndurnar. Það má kannski draga lokaleikhlutann saman með þeim orðum að Valsmenn hafi alltaf verið um það bil hálfu skrefi á undan. ÍR-ingar náðu aldrei að jafna eða komast yfir, en voru alltaf líklegir til að taka skrefið og sigla fram úr. Á betri skotdegi hefði það mögulega gengið upp, en í staðinn var seiglusigur Íslandsmeistaranna niðurstaðan, lokatölur 77-83.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn létu kraftmikla endurkomu ÍR-inga ekki slá sig útaf laginu. Þeir héldu áfram að setja stóru skotin og spiluðu skynsamlega meðan ÍR reyndu eins og þeir gátu að hleypa leiknum upp í einhvern hasar. Munaði þá ekki síst um hlut Kára Jónssonar sem skoraði 14 af 21 stigi sínum í lokaleikhlutanum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá ÍR voru þeir Taylor Maurice Johns og Collin Pryor atkvæðamestir, en Pryor hafði þó óvenju hægt um sig í seinni hálfleik. Pryor með 19 stig, aðeins 4 í seinni, og 12 fráköst, og Johns bætti við 17 stigum og 10 fráköstum, þar af 4 sóknarfráköstum. Johns var einnig með flestar stoðsendingar ÍR-inga, 4 talsins.

Hjá Valsmönnum var Kári Jónsson stigahæstur með 21 stig og tók af skarið þegar á reyndi. Pablo Bertone kom næstur með 17 og þá átti Callum Lawson einnig gott kvöld, skilaði 16 stigum á 26 mínútum.

Kári Jónsson var stigahæstur í liði Valsmanna.Vísir/Vilhelm

Hvað gekk illa?

ÍR-ingum gekk skelfilega að hitta úr þriggjastiga skotunum sínum í kvöld, voru aðeins 3 af 22 í hálfleik og 9 af 41 þegar yfir lauk, sem gefur 21% nýtingu. Þeir hafa nú leikið hvern leikinn á fætur öðrum þar sem þriggjastiga nýtingin dansar í kringum 20% og bíða enn eftir skotdeginum sínum, eins og Ísak Wíum þjálfari þeirra orðaði það.

Hvað gerist næst?

Valsmenn deila enn toppsætinu, nú með Keflavík en bæði lið eru með 7 sigra og tvö töp. Næsti leikur Valsara er heimaleikur gegn Njarðvíkingum 16. desember. ÍR aftur á móti eiga útileik gegn Keflvíkingum kvöldið árið, 15. desember.

Þetta lítur ágætlega út en það er margt á vellinum sem við getum gert betur

Ágúst Björgvinsson, starfandi þjálfari Valsmanna í fjarveru Finns Freys Stefánssonar, var sáttur með sigurinn.Vísir/Vilhelm

Ágúst Björgvinsson, starfandi þjálfari Valsmanna í fjarveru Finns Freys Stefánssonar, var sáttur með sigurinn og stigin tvö í leik sem varð mögulega óþarflega spennandi miðað við hvernig hann spilaðist í fyrri hálfleik.

„Já þetta var algjör naglbítur og hefði svo sem getað dottið hvoru megin sem var þarna í lokin. En við vorum sterkir á vítalínunni og það hjálpar.“

Var mögulega komin einhver værukærð í Valsmenn eftir nokkuð þægilegan fyrri hálfleik?

„Nei, en það er kannski erfitt að segja það þegar við komum út ekki grimmari en þetta. En það voru nokkrir hlutir sem við vorum óánægðir með, eins og hvað við vorum að tapa boltanum klaufalega og hvað þeir voru að taka mikið af sóknarfráköstum. Þannig að við fórum alveg yfir það en þeir mættu bara grimmari sem við svo sem bjuggumst alveg við. Þetta er bara erfiður völlur að koma á og bara gott að ná í þessi tvö stig á erfiðum útivelli á móti mjög duglegu og flottu liði. Þeir hafa verið að koma mjög skemmtilega inn í deildina með nýjum þjálfara. Við getum bara verið mjög sáttir við að ná sigri hér á þessum velli.“

Valsmenn hljóta að vera nokkuð sáttir með stöðuna eins og það hefur spilast úr deildinni, í toppsætinu og jólahátíð að nálgast?

„Já þetta lítur ágætlega út en það er margt á vellinum sem við getum gert betur. Við erum mjög ánægðir en ekki alveg nógu ánægðir með spilamennskuna. Við teljum okkur geta margt betur á báðum endum vallarins.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira