Sport

Veðjaði á sjálfan sig og fékk tuttugu milljarða betri samning ári síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Aaron Judge verður áfram leikmaður New York Yankees þar sem hann hefur spilað frá árinu 2016.
 Aaron Judge verður áfram leikmaður New York Yankees þar sem hann hefur spilað frá árinu 2016. AP/Frank Franklin II

Hafnaboltamaðurinn Aaron Judge spilar áfram í New York næstu árin eftir að hann gekk frá nýjum risasamningi við lið New York Yankees.

Judge fær 360 milljónir dollara fyrir níu ára samning eða sem svarar rúmlega 51,1 milljarði íslenskra króna.

Það má segja að Judge hafi veðjað á sjálfan sig og uppskorið ríkulega fyrir það.

Judge hafði lengi verið í samningaviðræðum við New York Yankees, þar sem hann hefur spilað frá árinu 2016, en rann út á samning eftir síðasta tímabil eftir að samningar tókust ekki.

Síðasta tilboð Yankees var 213,5 milljónir dollara fyrir sjö ára samning.

Judge ákvað að fara á markaðinn og hlusta á fleiri tilboð. Yankees vildu alls ekki missa hann og buðu honum á endanum 146 milljónum dollurum meira en fyrir ári síðan. Samningur Judge hækkaði því um tuttugu milljarða króna á einu ári.

Hann átti líka eitt besta tímabilið í sögu hafnaboltans og skoraði 62 heimahafnahlaup sem er það mesta í sögu Ameríkudeildarinnar. Gamla metið átti Roger Maris og var það frá 1961.

Judge var að sjálfsögðu valinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar en þetta er í fyrsta sinn sem þessi þrítugi leikmaður fær þau virtu verðlaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×