Erlent

Bein útsending: Síðasta ferðin um tunglið í bili

Samúel Karl Ólason skrifar
Orion geimfarið hefur verið á hárri sporbraut um tunglið undanfarna daga. Það ber meðal annars mikið af vísindabúnaði sem notaður er til að greina áhrif geimferða til tunglsins á menn.
Orion geimfarið hefur verið á hárri sporbraut um tunglið undanfarna daga. Það ber meðal annars mikið af vísindabúnaði sem notaður er til að greina áhrif geimferða til tunglsins á menn. NASA

Heimför Orion geimfarsins sem skotið var á loft í fyrstu tunglferð Artemis-áætlunarinnar aftur til jarðarinnar hefst í dag. Þá mun geimfarið einnig fara mjög nærri yfirborði tunglsins og það í beinni útsendingu.

Orion geimfar Artemis-1 er útbúið margskonar vísindabúnaði sem nota á til að greina þau áhrif sem geimferðir sem þessar hafa á mannslíkamann.

Geimfarinu var skotið af stað þann 16. nóvember eftir ítrekaðar frestanir en um fimmtíu ár eru frá því menn stóðu síðast á yfirborði tunglsins. Artemis-áætlunin snýr að því að koma upp varanlegri viðveru þar á næstu árum.

Sjá einnig: Vilja þrívíddarprenta híbýli á tunglinu og Mars

Geimfarið mun um klukkan 16:42 fara um tunglið í um 127 kílómetra hæð og kveikt á hreyflum geimfarsins í um þrjár og hálfa mínútu. Þarna verður þyngdarkraftur tunglsins notaður til að koma geimfarinu af stað aftur til jarðarinnar.

Fylgjast má með þessari ferð í beinni útsendingu í spilaranum hér að neðan. Útsendingin á að hefjast um klukkan fjögur. Stjórnstöð mun missa samband við geimfarið um tíma.

Fylgjast má með nákvæmri staðsetningu geimfarins, hraða þess og öðrum upplýsingum hér á vef NASA. Til stendur að geimfarið lendi í Kyrrahafinu þann ellefta desember.

Hér að neðan má sjá útskýringarmynd um ferðalag Orion en það sýnir meðal annars hvernig fyrsta ferð þess fram hjá tunglinu og sú síðasta eru þær þar sem geimfarið fer næst yfirborði þess.

Mynd sem sýnir ferðalag Artemis-1 og smágervihnatta sem einnig er verið að flytja til tunglsins.NASA

Artemis-1 snýr ekki eingöngu að því að kanna getu og öryggi SLS-eldflaugarinnar og Orion-geimfarsins. Einnig stendur til að koma flota smárra gervihnatta sem kallast CubeSat á braut um tunglið. Þá á svo meðal annars að nota til að leita að ís á og undir yfirborði tunglsins, sem hægt verður að nota við að koma upp mannaðri bækistöð á tunglinu í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá ítarlegt myndband þar sem farið er yfir verkefnið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×