Handbolti

„Ég sem þjálfari er svekktur yfir því að hafa ekki tekist að undirbúa þetta betur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon fórnar höndum á hliðarlínunni.
Gunnar Magnússon fórnar höndum á hliðarlínunni. vísir/hulda margrét

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var ósáttur með hvernig sínir menn mættu til leiks gegn FH í kvöld. Eftir átta leiki án taps í deild og bikar lutu Mosfellingar loks í gras í Kaplakrika í kvöld, 38-33.

„Þetta var okkar slakasti leikur í langan tíma. Það er langt síðan við töpuðum síðast. Stöðugleikinn hefur verið okkar styrkur og varnarleikurinn er stór þáttur hjá okkur. Við höfum verið með stöðuga og góða vörn og fengið á okkur hvað fæst mörk,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi í leikslok.

„Ég er bara svekktur hvernig við komum inn í leikinn andlega. Við náðum engum takti fyrsta korterið, vorum hræddir og það voru vonbrigði að við skildum ekki vera klárir andlega. Byrjunin var dýr. Vonbrigðin eru að koma svona inn í leikinn eftir viku undirbúning. Við vorum ekki andlega tilbúnir og ég sem þjálfari er svekktur yfir því að hafa ekki tekist að undirbúa þetta betur.“

Vörn Aftureldingar var óvenju slök í kvöld enda fékk liðið á sig 38 mörk. Gunnari fannst vantar upp á hugarfarið hjá sínum mönnum í vörninni.

„Í raun og veru klikkaði allt. Ási [Ásbjörn Friðriksson] var frábær og stígur upp í svona leikjum og ekki í fyrsta sinn. Okkur tókst ekki að framkvæma það sem við ætluðum að gera. Þetta snerist ekki endilega um taktík, heldur meira um klókindi, orkustig og framkvæma hlutina betur,“ sagði Gunnar.

„Við náðum ágætis kafla í seinni hálfleik en þá steig Jóhannes Berg [Andrason] upp og kláraði þetta. Við vorum lélegir en ég ætla að hrósa FH-ingunum. Þeir voru frábærir, voru betri en við á öllum sviðum og áttu þetta skilið. Þeir spiluðu örugglega sinn besta leik en við kannski okkar slakasta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×