Umfjöllun og viðtal: Breiðablik - Grindavík 65-89 | Grindavík stakk af í þriðja leikhluta gegn Kanalausum Blikum

Sæbjörn Þór Steinke skrifar
Danielle Rodriguez átti góðan leik fyrir Grindavík í kvöld.
Danielle Rodriguez átti góðan leik fyrir Grindavík í kvöld. Vísir/Vilhelm

Grindavík vann 89-65 sigur á Breiðabliki í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Sigurinn var sá fjórði í vetur hjá Grindavík en Blikar voru hins vegar að tapa sínum fjórða leik í röð.

Breiðablik tók á móti Grindavík í fyrsta leik í 10. umferð Subway deildar kvenna. Fyrir leikinn var Grindavík í 5. sætinu og Breiðablik í því sjöunda og tveimur stigum munaði á liðunum. Grindavík vann öruggan sigur eftir að hafa stungið heimakonur af í þriðja leikhluta. Liðið heldur með sigrinum pressu á efstu fjórum liðunum.

Breiðablik er ekki sama liðið og í upphafi leiktíðar. Liðið hefur misst úr bandaríska leikmanninn sinn Sabrinu Haines og Ísabella Ósk Sigurðardóttir skipti yfir í Njarðvík undir lok síðasta mánaðar. Liðið hefur nú tapað fjórum leikjum í röð, öllum ansi stórt.

Það var jafnræði með liðunum í fyrstu tveimur leikhlutunum, Grindavík hitti illa úr sínum skotum og voru gestirnir að fara illa með mjög góð færi í fyrri hálfleiknum. Heimakonur spiluðu á sama tíma vel úr því sem þær höfðu með Sönju Orozovic í broddi fylkingar.

Grindavík leiddi með þremur stigum í leikhléi en strax í upphafi seinni hálfleiks skildu leiðir. Grindavík byggði upp tuttugu stiga forskot á örfáum mínútum og þá var ekki spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Gestirnir spiluðu frábærlega á þessum kafla en það væri eins og allt loft væri farið úr Blikum. Að lokum munaði 24 stigum á liðunum.

Af hverju vann Grindavík?

Grindavík átti frekar dapran fyrri hálfleik en gestirnir náðu vopnum sínum í þriðja leikhluta, yfirspiluðu heimakonur fyrstu fjórar mínúturnar og kláruðu í raun verkefnið. Í Grindavík eru fleiri gæða leikmenn en í Breiðabliki og þeir leikmenn sýndu sitt rétta andlit í seinni hálfleik. Eftir að hafa einungis hitt úr einu af tíu þriggja stiga skotum í fyrsta leikhluta náðu gestirnir að laga þá tölfræði til muna og enduðu með 34% nýtingu (13/38).

Þessar stóðu upp úr:

Hjá Grindavík var Danielle Rodriguez efst í flestum tölfræðiþáttum, skoraði 23 stig, var með 29 framlagsstig, gaf sjö stoðsendingar og var með 67% skotnýtingu - þar af 100% fyrir utan þriggja stiga línuna (3/3). Þær Elma Dautovic og Hulda Björk Ólafsdóttir áttu einnig virkilega góðan leik, skoruðu báðar tuttugu stig. Amanda Okodugha tók tólf fráköst og stal þremur boltum og Hekla Eik var með tíu stig og fimm stoðsendingar.

Hjá Breiðabliki var Sanja atkvæðamest. Hún skoraði 22 stig, tók tíu fráköst, gaf fimm stoðsendingar, fiskaði sjö villur og var alls með 24 framlagsstig. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði átján stig og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði fjórtán.

Hvað gekk illa?

Breiðablik tapaði boltanum átján sinnum, miðað við einungis níu tapaða bolta hjá Grindavík. Það munar líka um að þriggja stiga nýtinguna. Einungis fjórir þristar rötuðu rétta leið hjá Breiðabliki úr 21 tilraun (21%) miðað við þrettán ofan í úr 38 tilraunum (34%) hjá Grindavík eins og kom fram hér að ofan.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við landsleikjahlé, íslenska landsliðið mætir Spáni á útivelli eftir rúma viku og Rúmeníu á heimavelli sunnudaginn 27. nóvember. 11. umferðin í Subway deildinni fer svo fram þann 4. desember. Þá mætir Grindavík liði Hauka á heimavelli og Breiðablik heimsækir Fjölni.

Þorleifur Ólafsson: Við vissum að við værum betri, trúðum því og sýndum það

Þorleifur Ólafsson þjálfari Grindavíkur fylgist með á hliðarlínunni í leiknum gegn Breiðablik.Vísir/Vilhelm

„Ég var svolítið brjálaður í hálfleik, við vorum lélegar í fyrri hálfleik, gerðum hluti sem við réðum ekki við. Við vorum að ráðast á körfuna á vitlausum tímum og ekki að dreifa boltanum, vorum bara mjög lélegar. Varnarlega vorum við ekki að tala saman og ekki að gera það sem lagt var upp með. Það var ekkert gott við fyrri hálfleikinn en þær sýndu hvað í þeim býr seinni,“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, eftir leikinn.

Lalli, eins og Þorleifur er oftast kallaður, fékk það sem hann vildi út úr seinni hálfleiknum. 

„Ég tel þetta vera muninn á liðunum, þeim vantar helling af leikmönnum sem er leiðinlegt, ekki bara fyrir þær heldur líka deildina. Við keyrðum yfir þær, frábært og ég er mjög sáttur við stelpurnar að koma svona inn í þriðja leikhluta.“

„Þetta gefur okkur tvö stig sem skipta alveg ótrúlega miklu máli í þessari deild. Við erum að tapa leikjunum á móti þessum liðum sem eru fyrir ofan okkur. Við þurfum að fara vinna þá leiki. Við vissum að við værum betri, trúðum því og sýndum það.“

Er Grindvíska liðið nógu gott til að ná liðunum fyrir ofan sig?

„Já, ég held það og hef trú á því. Við þurfum að gefa í og nota þetta frí til að koma öflugar til leiks þegar það er búið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira