Erlent

NASA tókst að stýra smá­stirni af braut en það kostaði 47 milljarða króna

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá mynd af smástirninu fyrir áreksturinn.
Hér má sjá mynd af smástirninu fyrir áreksturinn. NASA/Johns Hopkins APL

Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur tilkynnt að tilraun á nýrri aðferð þeirra til þess að afstýra smástirnum sem séu á leið til Jarðar hafi tekist. Stofnunin framkvæmdi tilraunina sjálfa fyrir um tveimur vikum síðan og kostaði hún 325 milljónir Bandaríkjadala eða 47,5 milljarða króna.

Geimfari var skotið í áttina að smástirni sem ógnaði ekki öryggi jarðar og athugað hvort hægt væri að stýra því af þeirri braut sem það væri á, skyldi steinn sem ógni öryggi jarðar stefna hingað í framtíðinni. Guardian greinir frá þessu.

Geimfarið er kallað „The Dart“ eða „Pílan“ en „Dart“ stendur fyrir „Double Asteroid Redirection Test.“ Eins og áður sagði tókst tilraunin en NASA tókst að stýra stirninu af þeirri braut sem það var á. 

Við áreksturinn við smástirnið er geimfarið sagt hafa skilið eftir sig gýg og lausagrjót ásamt ryki sem dreifst hafi umhverfis stirnið. Samkvæmt BBC var smástirnið sjálft kallað „Dimorphos“ og var 160 metrar á breidd.

Geimfarið sjálft var á stærð við sjálfsala og eyðilagðist við áreksturinn en það var á 22.500 kílómetra hraða. 

Talsmenn NASA segja aðgerð sem þessa vera hluta af stærri varnaráætlun en miklu máli skipti að hafa sem mestan fyrirvara til þess að geta afstýrt smástirnum. Stofnunin hafi með þessu sannað að hún sé mikilvægur verndari jarðar.

Með því að ýta hér geta lesendur séð seinustu myndirnar sem geimfarið tók áður en áreksturinn varð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×