Íslenski boltinn

Rosenborg kynnir Ísak Snæ til leiks

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson við undirskriftina hjá Rosenborg.
Ísak Snær Þorvaldsson við undirskriftina hjá Rosenborg. Mynd/Rosenborg

Norska liðið Rosenborg hefur gengið frá kaupum á Ísaki Snæ Þorvaldssyni frá Breiðabliki. Ísak klárar tímabilið hér heima og fer til Rosenborgar um áramótin.

Það sást til Ísaks í Þrándheimi í gær og þótti ljóst að hann væri að ganga frá skiptunum sem hafa legið í loftinu um hríð. Rosenborg staðfestir komu hans í dag en hann skrifar undir fimm ára samning við félagið, til 2028.

„Ég er mjög spenntur og hlakka til þess sem fram undan er. Ég valdi Rosenborg því að þeir hafa sýnt mér áhuga lengi og það er stórt lið með ríka sögu. Mér líkar við verkefnið og þeir eru lið á uppleið. Ég get ekki beðið eftir að byrja,“ er haft eftir Ísaki á heimasíðu Rosenborgar.

Ísak mun klára tímabilið með Breiðabliki sem er efst í Bestu deild karla, með átta stiga forskot þegar fjórir leikir eru eftir.  Ísak Snær hefur átt stóran þátt í góðu gengi Blika í sumar en hann er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar með 13 mörk í 20 leikjum.

Ísak Snær verður annar Íslendingurinn á mála hjá Rosenborg. Kristall Máni Ingason er leikmaður liðsins en hann skipti til Þrándheims frá Víkingi um mitt sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.