Sport

Ingvar: „Aldrei hræddur um að við myndum tapa"

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ingvar Jónsson og Þórður Ingason, markvarðarteymi Víkings, með Mjólkurbikarinn í lúkunum. 
Ingvar Jónsson og Þórður Ingason, markvarðarteymi Víkings, með Mjólkurbikarinn í lúkunum.  Vísir/Hulda Margrét

Ingvar Jónsson, markvörður Víkings Reykjavíkur, var aldrei í vafa um hvoru megin sigurinn myndi lenda í úrslitaleik Mjólkurbikars karla í fótbolta í dag. 

„Það var vissulega svekkjandi að fá þetta klaufalega mark á okkur í uppbótartíma leiksins en ég var ekki á neinum tímapunkti stressaður um að við myndum tapa. 

Mér fannst við vera betri allan leikinn og hafa góð tök á leiknum," sagði Ingvar sem skoraði sjálfsmark sem varð til þess að leikurinn fór í framlengingu. 

„Við kvittuðum fyrir jöfnunarmarkið strax í upphafi framlengingarinnar sem var þægilegt. Við stýrðum leiknum allan tímann og sigldum sigrinum fagmannlega í höfn," sagði hann enn fremur. 

„Þetta Víkingslið er magnað og við höfum nú náð áfanga sem fá önnur lið hafa náð. Það er ótrúlega gaman að spila með þessu liði og góð tilfinning að hafa tekist að skapa þann kúltúr sem við höfum gert. Það er erfitt að skapa sigurhefð og það höfum við gert," sagði Ingvar um tilfinnguna sem bærðist um í brjósti hans.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×