Sport

Yngstur í sögunni til að verða bestur í heimi: „Erfitt að tala núna“

Sindri Sverrisson skrifar
Carlos Alcaraz fagnar stigi í sigrinum gegn Casper Ruud.
Carlos Alcaraz fagnar stigi í sigrinum gegn Casper Ruud. AP/Charles Krupa

Spánverjinn Carlos Alcaraz átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann vann risamót í tennis í fyrsta sinn á ferlinum, og komst þar með á topp heimslistans, með því að vinna US Open í gær.

Alcaraz er aðeins 19 ára og fjögurra mánaða gamall og er þar með sá yngsti í sögunni til að komast á topp heimslistans í tennis.

Alcaraz vann Norðmanninn Casper Ruud í úrslitaeinvíginu eftir hörkuleik; 6-4, 2-6, 7-6, 6-3 en báðir áttu möguleika á að vinna risamót í fyrsta sinn og að komast á topp heimslistans.

Alcaraz, sem var í 141. sæti heimslistans í byrjun síðasta árs, er sá yngsti til að vinna risamót frá því að Rafael Nadal vann Opna franska mótið árið 2005.

„Þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um frá því að ég var smástrákur, að verða efstur á heimslista og vinna risamót. Það er erfitt að tala núna, með allar þessar tilfinningar flæðandi,“ sagði Alcaraz eftir sigurinn.

Hann er fyrsti táningurinn sem kemst á topp heimslistans í tennis en Ástralinn Lleyton Hewitt, sem vann US Open árið 2001, var áður sá yngsti til að komast á toppinn frá því að heimslistinn var fyrst birtur árið 1973.

Swiatek styrkti stöðu sína á toppnum

Sú efsta á heimslista kvenna, hin pólska Iga Swiatek, vann Ons Jabeur frá Túnis í úrslitaleik einliðaleiks kvenna á US Open um helgina, 6-2 og 7-6.

Swiatek vann einnig Opna franska mótið á þessu ári og er fyrsta konan frá árinu 2016 til að vinna tvö risamót á sama ári, og alls hefur þessi 21 árs gamla tennisstjarna núna unnið þrjú risamót á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×