Körfubolti

Be­verl­ey um að spila með LeBron og Davis: „Þeir eru að spila með mér“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrick Beverley fagnar er hann lék með Minnesota Timberwolves á meðan LeBron James sést frekar bugaður í bakgrunn.
Patrick Beverley fagnar er hann lék með Minnesota Timberwolves á meðan LeBron James sést frekar bugaður í bakgrunn. David Berding/Getty Images

Það verður seint sagt að nýjasti leikmaður Los Angeles Lakers í NB deildinni í körfubolta , sé ekki með munninn fyrir neðan nefið. Patrick Beverley benti Anthony Davis og LeBron James góðfúslega á að hann hefði farið í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð en ekki þeir.

Það kom verulega á óvart þegar tilkynnt var að Lakers hefði sótt Pat Beverley. Ofan á að hann og Russell Westbrook, leikstjórnandi Lakers, höfðu eldað grátt silfur saman í fleiri ár þá lék Beverley með Los Angeles Clippers á sínum tíma.

Er hann var leikmaður Clippers var hann duglegur að láta nágranna sína í Lakers heyra það og láta þá vita ef Clippers endaði ofar í Vesturdeildinni. Honum var síðan skipt til Minnesota Timberwolves og svo í sumar til Utah Jazz en þaðan fékk Lakers hann.

Beverley fór hins vegar í umspilið með Minnesota á síðustu leiktíð og lét liðsfélaga sína heldur betur vita af því í viðtali nýverið. Hann var spurður út í hvernig það væri að fara spila með leikmönnum á borð við LeBron James og Anthony Davis. Þá stóð ekki á svörum hjá okkar manni:

„Þeir eru að fara spila með mér. Ég komst í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð, þeim tókst það ekki.“

Hinn 34 ára Beverley gæti verið púslið sem vantar í varnarleik Lakers ætli liðið sér að gera eitthvað í vetur. Til þessa þurfa þá LeBron og Davis að haldast heilir en það hefur ekki verið raunin undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×