Körfubolti

Lakers sækir fjand­mann West­brook

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Russell Westbrook og Patrick Beverley verða seint taldir perluvinir.
Russell Westbrook og Patrick Beverley verða seint taldir perluvinir. David Berding/Getty Images

Los Angeles Lakers hefur ákveðið að skipta Talen Hurton-Tucker út fyrir kjaftaskinn Patrick Beverley. Sá hefur lengi átt í deilum við Russell Westbrook, leikstjórnanda Lakers, ásamt því að urða reglulega yfir Lakers er hann lék með nágrönnunum í Clippers.

Það verða verulegar breytingar á leikmannahópi Lakers milli tímabila en bæði leikmenn og stuðningsfólk liðsins vill gleyma síðustu leiktíð í snatri. Eftir að hafa sótt hvern ellismellinn á fætur öðrum fyrir síðustu leiktíð þá gekk allt á afturfótunum og liðið komst ekki í úrslitakeppnina.

Frank Vogel var látinn fara sem þjálfari liðsins og í hans stað kom Darvin Ham. Umræðan í sumar hefur svo helst snúið að Kyrie Irving og hversu mikið hann væri til í að spila aftur með LeBron James. Þá fékk sá síðarnefndi risasamning og mun spila með liðinu þangað til hann verður fertugur.

Nú hefur Lakers svo skipt á leikmönnum við Utah Jazz. Síðarnefnda liðið fær í raun eina unga efniviðinn sem er í leikmannahóp Lakers á meðan LeBron og félagar fá 34 ára gamlan Beverley sem er hvað þekktastur fyrir að vera með munninn fyrir neðan nefið ásamt því að spila ágætis vörn. 

Það virðist því sem Lakers sé að fara í sama pakka og síðasta sumar er liðið sótti hvern ellismellinn á fætur öðrum.

Hvað varðar Beverley og Westbrook þá nær saga þeirra allt aftur til ársins 2013 er Westbrook meiddist illa á hné eftir að Beverley reyndi að stela boltanum af leikstjórnandanum. Síðan þá hafa þeir eldað grátt silfur saman.

Árið 2019 mætti Westbrook í viðtal og lét eftirfarandi orð falla um Beverley: 

„Hann lætur eins og hann sé að spila vörn, hann er ekki að dekka neinn. Hann er bara hlaupandi í hringi, gerandi ekki nokkurn skapaðan hlut.“

Beverley sagði að ímynd fólks á sér hefði breyst eftir þessi ummæli en sá hlær best sem síðast hlær. Beverley sendi Westbrook kaldar kveðjur á Twitter-síðu sinni í febrúar á þessu ári þegar Westbrook var að eiga hvern skelfingarleikinn á fætur öðrum með Lakers.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir félagar ná saman í fjólubláu og gulu, það er ef Westbrook verður enn leikmaður Lakers er tímabilið hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×