Sport

Braut og bramlaði eftir tap: „Ég er eyðilagður“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kyrgios smallaði tveimur spöðum í bræði sinni eftir tapið.
Kyrgios smallaði tveimur spöðum í bræði sinni eftir tapið. Diego Souto/Quality Sport Images/Getty Images

Ástralinn Nick Kyrgios var í öngum sér eftir tap fyrir Rússanum Karen Khachanov á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í gær. Hann braut tvo tennisspaða eftir tapið.

Þeir mættust í átta manna úrslitum í gær en hinn 27 ára gamli Kyrgios þurfti aðhlynningu eftir fyrsta settið þar sem vinstra lærið var að stríða honum. Hann vann annað settið eftir að hafa tapað því fyrsta og áfram skiptust þeir félagar á sigrum þar til Khachanov vann fimmta settið og fagnaði sigri.

„Mér líður eins og ég hafi brugðist svo mörgum,“ sagði Kyrgios eftir leikinn.

„Mér líður eins og þessi fjögur [risa]mót séu þau einu sem munu nokkurn tíma skipta einhverju máli. Það er eins og maður fari aftur á byrjunarreit. Ég þarf að bíða eftir Opna ástralska,“ sagði Kyrgios sem hafnaði í öðru sæti á Wimbledon-mótinu fyrr í sumar.

„Ég er eyðilagður, með brotið hjarta. Ekki bara fyrir mig, heldur alla sem ég þekki sem vilja að ég fagni sigri,“

Eftir tapið gjöreyðilagði Kyrgios tvo tennisspaða áður en hann yfirgaf völlinn. Myndskeið af því atviki má sjá að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×