Körfubolti

Nýr samningur við þjálfara meistaranna loks í höfn

Sindri Sverrisson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson fagnaði enn einum Íslandsmeistaratitlinum í vor.
Finnur Freyr Stefánsson fagnaði enn einum Íslandsmeistaratitlinum í vor. vísir/bára

Eftir að hafa stýrt Val til langþráðs Íslandsmeistaratitils í körfubolta karla í vor hefur þjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson nú skrifað undir nýjan samning til þriggja ára við félagið.

Þetta staðfesti Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, í samtali við Vísi í dag.

Finnur tók við Val í maí 2020 og skrifaði þá undir samning til tveggja ára en sá samningur rann út í sumar. Þegar blaðamaður heyrði í þjálfaranum fyrir helgi hafði enn ekki verið gengið frá nýjum samningi við hann en nú er endanlega ljóst að hann verður áfram í brúnni á Hlíðarenda.

Finnur var áður þjálfari Horsens í Danmörku og enn áður stýrði hann KR til fimm Íslandsmeistaratitla á fimm árum. Þá hefur hann einnig verið aðastoðarlandsliðsþjálfari Íslands.

Ljóst er að Valur mætir með öfluga sveit til keppni í vetur eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum í vor. Þó hefur Pavel Ermolinskij tilkynnt að hann muni ekki spila áfram með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×