Erlent

Myndir úr ó­leyfi­legri mynda­vél varpa ljósi á hrap her­flug­vélar í Noregi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Síðasta myndin, tekin um tíu til fimmtán sekúndum áður en flugvélin skall í hlíðinni.
Síðasta myndin, tekin um tíu til fimmtán sekúndum áður en flugvélin skall í hlíðinni. Mynd/US MARINE CORPS

Myndir úr myndskeiði sem tekið var upp með GoPro-myndavél sem smyglað var um borð í bandaríska herflugvél sem hrapaði í Noregi í mars þykja varpa ljósi á orsakir slyssins.

Fjórir bandarískir hermenn létust í slysinu sem varð þegar flugvélin, af gerðinni V-22 Osprey, hrapaði.

Osprey-vélarnar eru nokkuð sérstakar, þær eru búnar tveimur hreyflum og geta þær tekið á loft og lent eins og þyrlur, en þegar í loftið er komið er hægt að snúa hreyflunum og flýgur vélin þá eins og flugvél.

Samskonar vél og hrapaði í Noregi í mars.EPA/MARK R. CRISTINO

Hermenninir um borð tóku þátt í NATO-æfingunni Cold Response sem haldin var í mars í Noregi.

Norska ríkisútvarpið NRK hefur birt skot úr myndskeiði sem tekið var með GoPro myndavél á meðan fluginu stóð. Í frétt NRK kemur fram að ekki hafi verið til staðar leyfi til að nota slíka myndavél, óheimilt sé að koma með einkamyndavélar um borð í herflugvélar bandaríska hersins. Engu að síður er ljóst að myndskeiðið gaf rannsakendum gleggri mynd af því sem gerðist í fluginu örlagaríka.

Síðasta myndin tekin örfáum sekúndum fyrir slysið

Rannsakendur telja að mistök flugmannsins hafi orðið til þess að vélin hrapaði. Myndskeiðið þykir varpa ljósi á síðustu augnablikin áður en flugvélin hrapaði en síðasta myndin var tekin tíu til fimmtán sekúndum áður en slysið varð. 

Til að mynda telja rannsakendur að myndbandið sýni að veðuraðstæður hafi ekki verið slæmar, líkt og áður hafði mögulega verið talið. Veðuraðstæður við björgunaðgerðir voru mjög slæmar, en útlit er fyrir að veðrið hafi breyst snögglega eftir að vélin hrapaði.

Stilla úr myndskeiðinu sem tekin er þegar ein mínúta var í slysið. Myndin sýnir að veðuraðstæður voru ágætar. Rauða örin bendir á staðinn þar sem slysið varð, í um sex kílómetra fjarlægð.Mynd/US MARINE CORPS

Ástæða slyssins sé fyrst og fremst röð flugaðgerða sem flugmaðurinn hafi framkvæmt í lágflugi yfir Gråtådalen þar sem slysið átti sér stað.

Sérfræðingur sem NRK fékk til að lesa yfir skýrslu rannsakenda segir að ljóst sé að flugmaðurinn hafi fengið það verkefni að fylgja ánni sem liggur um dalinn.

Flugmaðurinn talinn hafa tekið of krappar beygjur í þröngum dal

Svo virðist sem að flugmaðurinn hafi flogið of nálægt fjallshlíð, í um tíu metra fjarlægð, og því þurft að taka mjög krappa beygju, krappari beygju en flugvélin væri hönnuð til að ráða við, til að komast hjá því að skella á hlíðinni.

Vegna þessarar beygju hafi flugmaðurinn þurft að taka aðra enn krappari beygju til að leiðrétta stefnuna eftir fyrri beygjuna. Ekki hafi hins vegar reynst nógu mikið rými í hinum tiltölulega þrönga dal fyrir þessar kröppu stefnubreytingar. 

Flugvélin hafi verið á uppleið er hún skall á hlíðinni en flugmanninum hafi ekki tekist að hækka flugið nógu mikið. Sem fyrr segir létu fjórir bandarískir hermenn lífið í slysinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×