Körfubolti

Bjóða Rússum skipti á körfu­bolta­konunni og Kaup­manni dauðans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner hefur setið í fangelsi í Rússlandi síðan í febrúar.
Brittney Griner hefur setið í fangelsi í Rússlandi síðan í febrúar. Getty/Pavel Pavlov

Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að fá bandarísku körfuboltakonuna Brittney Griner heim og nú berast fréttir um að bandarísk yfirvöld hafi nú gert Rússum tilboð.

Bandaríkjamenn vilja endurheimta hana og annan Bandaríkjamann að nafni Paul Whelan í skiptum fyrir rússneska vopnasölumanninn Viktor Bout. Bandarískir fjölmiðlar eins og CNN slá þessu upp en hvorki Hvíta húsið né utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru tilbúin að greina frá innihaldi tilboðsins.

New York Times segir frá því að Bandaríkjamenn hafi boðið þessi skipti í síðasta mánuði og að Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi verið þeim samþykkur.

Áður höfðu borist fréttir af því að Rússar hafi áhuga á slíkum skiptum. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætlar að ræða tilboðið í samtali við utanríkisráðherra Rússa, Sergei Lavrov, en þeir hafa ekki rætt saman síðan stríðið í Úkraínu hófst.

Viktor But hefur verið í haldi Bandaríkjamanna frá 2012. Hann hefur viðurnefnið Kaupmaður dauðans en hann stundaði það að smygla vopnum til Afríku og Miðausturlanda í kringum aldamótin.

Viktor But er sagður fyrirmyndin af persónu Nicholas Cage í Hollywood kvikmyndinni Lord of war. Hann var handtekinn í Tælandi árið 2008 og framseldur í framhaldinu til Bandaríkjanna. Fjórum árum seinna var hann dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að smygla vopnum til uppreisnarmanna í Kólumbíu en vopnin voru síðan notuð gegn bandarískum ríkisborgurum.

Griner var handtekin á Sheremetyevo flugvellinum í Moskvu í febrúar með hassolíu í farangri sínum á flugvellinum, sem hún notaði til rafrettureykinga. Hún var þá á leið til Rússlands til að spila körfubolta.

Griner er stórstjarna í WNBA deildinni og hefur misst af 2022 tímabilinu en þær bestu fara líka til Evrópu milli tímabili því þar fá þær miklu betur borgað en í WNBA-deildinni.

Griner varð fyrsta konan í sögu WNBA-deildarinnar til að troða tvisvar sinnum í sama leiknum en hún er með 17,7 stig, 7,6 fráköst og 2,9 varin skot að meðaltali í 254 leikjum á WNBA-ferlinum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.