Sport

Fagnaði heimsmeti og HM gulli með heljarstökki á hlaupabrautinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Armand Duplantis fagnar heimsmeistaratitli sínum í stangarstökki.
Armand Duplantis fagnar heimsmeistaratitli sínum í stangarstökki. AP/Charlie Riedel

Svíinn Armand Duplantis hefur sett ófá heimsmetin síðustu misseri og endurtók leikinn þegar hann tryggði sér heimsmeistaratitilinn í stangarstökki í Eugene í Oregon fylki.

Duplantis fór á endanum yfir 6,21 metra en hann hafði bætt útimetið í lok júní með því að stökkva 6,16 metra.

Heimsmetið í stangarstökki nær yfir bæði innanhúss og utanhúss stökkin og var Duplantis því að bæta sitt eigið met frá því í mars þegar hann stökk 6,20 metra á HM innanhúss í Belgrad.

Duplantis er enn bara 22 ára gamall og því líklegur til að vera yfirburðamaður í þessari grein í mörg ár í viðbót.

Hann varð að sætta sig við silfur á síðasta heimsmeistaramóti sem fór fram í Doha árið 2019 en er Ólympíumeistari síðan í Tókýó í fyrra.

Duplantis hefur þar með tryggt sér tvo heimsmeistaratitla á árinu 2022 með því að setja heimsmet í leiðinni.

Duplantis var hoppandi kátur með árangurinn, tók meðal annars heljarstökk á hlaupabrautinni áður en hann fann kærustuna í stúkunni og kyssti. Kærasta hans er sænska fyrirsætan Desiré Inglander.

Hér fyrir neðan má sjá hinn hoppandi glaða Duplantis.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.