Erlent

Sýndu mátt James Webb geimsjónaukans

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórar af myndunum sem sýndar voru í dag.
Fjórar af myndunum sem sýndar voru í dag. James Webb

Geimvísindastofnanir Bandaríkjanna, Evrópu og Kanada birtu í dag nýjar myndir úr James Webb geimsjónaukanum (JWST). Fyrsta myndin var opinberuð í gær en sjónaukinn er sá stærsti og besti sem hefur verið smíðaður og er talinn munu gjörbreyta stjarnvísindum á komandi árum.

Hægt er að sjá allar myndirnar í hárri upplausn hér á vef James Webb.

Hér að neðan má sjá upplýsingar frá Stjörnufræðivefnum um þá hluti sem myndirnar sýndu.

-Fyrsta myndin sem birt var í dag var litrófsgreining af WASP-93b, sem er fjarreikistjarna, í um 1.150 ljósára fjarlægð. Þar er um að ræða gasrisa sem er um helmingi minni en Júpíter en þó mun heitari. Sjónaukinn var notaður til að litrófsgreina reikistjörnuna en þannig er hægt að fá upplýsingar um efnasamsetningu andrúmslofts hennar.

Greiningin sýndi fram á að líklega er vatn á reikistjörnunni og ský.

-Næstu myndir voru af Suðurhringþokunni, sem er geimþoka sem myndaðist við dauða stjörnu sem talin er hafa verið svipað stór og þung og okkar sól.

-Kvintett-Stephans er þyrping vetrarbrauta í um 29 milljón ljósára fjarlægð og í stjörnumerkinu Pegasusi.

Til stendur að opinbera myndirnar klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Fylgjast má með útsendingunni í spilaranum hér að neðan.

-Kjalarþokan er í um 7.600 ljósára fjarlægð frá jörðu og er ein stærsta og bjartasta geimþokan á næturhimninum. Samkvæmt Stjörnufræðivefnum er Kjalarþokan stjörnumyndundarsvæði þar sem stjörnur og sólkerfi verða til.

Birtu dýpstu mynd sögunnar

Fyrsta fullunna myndin úr sjónaukanum var birt í gær. Sú mynd var af þyrpingu stjörnuþoka sem kallast SMACS 0723 og er í um 4,6 milljarða ljósára fjarlægð frá jörðu.

Ljósið frá þyrpingunni er eldra en jörðin, sem er 4,5 milljarða ára gömul.

Þyrpingin beygir ljós á þá vegu að aðrar stjörnuþokur á bakvið hann verða skýrari. Þúsundir annarra stjörnuþoka eru sýnilegar á bakvið SMACS 0723. Ein þeirra er sögð vera í rúmlega þrettán milljarða ljósára fjarlægð en alheimurinn er talinn vera um 13,8 milljarða ára gamall.

James Webb er stærsti og besti geimsjónauki sem hefur verið framleiddur og er honum meðal annars ætlað að varpa ljósi á uppruna alheimsins og taka hágæðamyndir af fjarlægum stjörnuþokum.

Sjá einnig: Eðlilegt að fólk sé stressað fyrir geimskot James Webb

JWST nemur innrautt ljós og þarf hann að vera gífurlega kaldur til að virka rétt og svo geislun frá honum sjálfum trufli ekki skynjara sjónaukans.

Upprunalega stóð til að sjónaukinn myndi kosta einn til 3,5 milljarða dala og átti að skjóta honum á loft árið 2010. Honum var skotið á loft í fyrra og kostaði í heild um tíu milljarða dala.


Tengdar fréttir

Varð fyrir geimgrjóti og skemmdist lítillega

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, opinberuðu í vikunni að James Webb geimsjónaukinn varð nýverið fyrir smáu geimgrjóti sem skemmdi einn af speglum hans. Skemmdirnar eru þó sagðar koma lítið niður á gæðum mynda spegilsins.

James Webb kominn á á­fanga­stað

James Webb geimsjónaukinn er nú kominn á lokaáfangastað sinn, svokallaðan Lagrange-punkt 2. „Velkominn heim, Webb“ sagði yfirmaður bandarísku geimferðarstofnunarinnar, NASA, við tilefnið.

Vísindamenn anda léttar

Vísindamönnum og verkfræðingum Geimvísindastofnanna Bandaríkjanna, Evrópu og Kanada tókst um helgina að opna gullhúðaðan spegil James Webb-geimsjónaukans. Það markaði lokaáfanga opnunar sjónaukans, sem er sá stærsti og besti sem hefur verið framleiddur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×