Innlent

Annar hver fangi með ADHD

Árni Sæberg skrifar
Leiða má að því líkur að um helmingur fanga á Litla-Hrauni á Eyrarbakka glími við ADHD.
Leiða má að því líkur að um helmingur fanga á Litla-Hrauni á Eyrarbakka glími við ADHD. Vísir/Vilhelm

Rannsóknir nýs geðheilbrigðisteymis fangelsa landsins benda til þess að um helmingur fanga sé með taugaþroskaröskunina ADHD.

Sigurður Örn Hektorsson, geð- og fíknilæknir, er yfirlæknir geðheilbrigðisteymis á sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins  hefur komið upp innan veggja fangelsa landsins. 

Í viðtali í nýútgefnu Læknablaði segir hann að sér hafi komið á óvart hversu margir alvarlega geðsjúkir einstaklingar séu vistaðir í fangelsi hér á landi.

Sigurður Örn segir að erlendar rannsóknir sýni fram á að um fjórðungur til helmingur fanga sé með ADHD. „Tilfinning okkar er að annar hver fangi geti verið með ADHD hér á landi,“ segir hann við Læknablaðið.

Þá segir hann að bæði þunglyndi og kvíði fylgi gjarnan því að vera með ADHD og fangarnir fái því viðeigandi ráðgjöf hjá geðheilbrigðisteyminu. „Margir hafa tekið miklum framförum eftir að þessi vinna fór í gang,“ segir Sigurður Örn.

Úrræði vanti fyrir geðsjúka fanga

Sigurður Örn segir að margir fangar séu geðsjúkir og að þeir þrífist illa innan veggja fangelsa. „Við viljum að fangar með geðsjúkdóma hafi betri aðbúnað og aðgang að geðdeildum og geðheilbrigðisstofnunum utan fangelsanna. Það vantar úrræði fyrir þennan hóp. Annað hvort þarf að efla réttar- og öryggisdeildina inni á Landspítala eða stofna til úrræða innan fangelsiskerfisins sem grípur þennan hóp,“ segir hann.

Sigurður segir að allt of margir alvarlega geðsjúkir afpláni í fangelsum hér á landi og gagnrýnir hversu þröngt sé horft á geðvanda þegar sakhæfi afbrotamanna er metið. Hann nefnir sérstaklega að sjúklegt ástand megi ekki orsakast af neyslu ef dæma eigi menn ósakhæfa.

Ofbeldisbrot séu iðulega framin undir áhrifum vímuefna af fólki sem lengi hafi verið í neyslu. „Sá getur jafnvel verið í geðrofi vegna neyslunnar og ef svo er þá leiðir það ekki til ósakhæfis,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal við Sigurð Örn í Læknablaðinu má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×