Sport

Nadal komst í undanúrslit þrátt fyrir að spila meiddur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rafael Nadal er á leið í undanúrslit Wimbeldon-mótsins.
Rafael Nadal er á leið í undanúrslit Wimbeldon-mótsins. Shi Tang/Getty Images

Spænski tenniskappinn Rafael Nadal nældi sér í sæti í undanúrslitum Wimbeldon-mótsins í gær, þrátt fyrir að spila meiddur gegn Bandaríkjamanninum Taylor Fritz.

Eftir að hafa tapað fyrsta settinu 3-6 vann Nadal annað settið 7-5. Fritz vann svo þriðja settið 3-6, en Nadal vann fjórða og fimmta sett, 7-5 og 7-6, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum.

Hins vegar þurfti að gera hlé á viðureigninni eftir annað settið til að hlúa að Spánverjanum. Líkt og í 16-manna úrslitum lék Nadal með bindingar um kviðinn í gær, og meiðslin höfðu greinilega áhrif á hann.

Þessi 36 ára tenniskappi lét það þó ekki á sig fá og tryggði sér sæti í undanúrslitum þar sem hann mætir ástralska skemmtikrafinum Nick Kyrgios.

„Ég veit það ekki,“ sagði Nadal, aðspurður að því hvernig hann fór að því að klára þessa viðureign.

„Líkaminn er nokkuð góður, en ef ég á að vera hreinskilinn þá er eitthvað sem er ekki nógu gott í kviðnum á mér. Ég þurfti að finna leið til að gefa upp aðeins öðruvísi.“

„Ég hugsaði oft með mér að ég myndi ekki ná að klára þessa viðureign, en orkan í áhorfendum kom mér í gegnum þetta. Takk fyrir það,“ sagði Nadal eftir sigurinn.

Eins og áður segir mætir Nadal Ástralanum Nick Kyrgios í undanúrslitum, en í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Serbinn Novak Djokovic og Englendingurinn Cameron Norrie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×