Körfubolti

Mótherji sendi Martin íslenska batakveðju

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson spilar sjálfsagt ekki meira fyrir Valencia á þessu ári. Hann fékk góða kveðju frá gömlum liðsfélaga, Rokas Giedraitis.
Martin Hermannsson spilar sjálfsagt ekki meira fyrir Valencia á þessu ári. Hann fékk góða kveðju frá gömlum liðsfélaga, Rokas Giedraitis. Instagram/Gettty

Stuðnings- og batakveðjum hefur rignt yfir Martin Hermannsson eftir að hann sleit krossband í hné í leik með Valencia í úrslitakeppni spænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í fyrrakvöld.

Martin meiddist í fyrri hálfleik í leik gegn Baskonia í 8-liða úrslitum og var greinilega sárþjáður. Í ljós kom svo að krossband hefði slitnað í vinstra hné. Alla jafna tekur það um 6-9 mánuði að jafna sig af slíkum meiðslum.

Martin hefur þakkað fyrir stuðninginn og skilaboðin sem hann fékk í kjölfar meiðslanna en honum barst fjöldi skilaboða.

Meðal annars fékk Martin skilaboð frá Litháanum Rokas Giedraitis sem er leikmaður Baskonia og var því andstæðingur Martins á mánudagskvöld. Saman léku þeir með Alba Berlín og urðu Þýskalands- og bikarmeistarar árið 2020.

Giedraitis skrifaði til Martins á íslensku á Instagram: „Verstu sterkur bróðir minn! Þú verður betri og sterkari!“

Núverandi liðsfélagar Martins hjá Valencia hafa sömuleiðis sent honum kveðjur á samfélagsmiðlum þar sem þeir segjast standa með „víkingnum“, að hann muni snúa aftur með brosið sitt inn á völlinn áður en langt um líði, og að endurkoma hans verði söguleg.

Klippa: Stuðningskveðjur til Martins

Vegna meiðslanna missir Martin meðal annars af leikjum Íslands í undankeppni HM í sumar en liðið á möguleika á að komast í lokakeppni HM í fyrsta sinn í sögunni.


Tengdar fréttir

Martin hélt um hnéð er hann var borinn af velli

Martin Hermannsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta og leikmaður Valencia á Spáni, fór meiddur af velli í leik Valencia og Baskonia í 8-liða úrslitum í úrslitakeppninni á Spáni. Meiðslin litu illa út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×