Körfubolti

Martin hélt um hnéð er hann var borinn af velli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Martin virtist sárkvalinn og hélt um vinstra hnéð.
Martin virtist sárkvalinn og hélt um vinstra hnéð. Skjáskot/Stöð 2 Sport

Martin Hermannsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta og leikmaður Valencia á Spáni, fór meiddur af velli í leik Valencia og Baskonia í 8-liða úrslitum í úrslitakeppninni á Spáni. Meiðslin litu illa út.

Liðin eigast við í Valencia þar sem sæti í undanúrslitum í úrslitakeppninni er undir. Sigurvegarinn fer áfram en tapliðið í sumarfrí.

Valencia var með 37-31 forystu er tæpar tvær mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Martin var þá með boltann innan teigs Baskonia og féll til jarðar þrátt fyrir enga snertingu frá andstæðingi. Hann hélt um vinstra hnéð og virtist kvalinn áður en hann var borinn af velli.

Eitthvað virtist fara í hnénu á Martin en hverskyns meiðslin eru bíður frekari rannsókna. Martin mætti ekki til leiks í síðari hálfleik og vel getur hugsast að tímabili hans sé lokið.

Þá er alls óvíst hvort hann nái sér fyrir leik Íslands og Hollands í forkeppni HM þann 1. júlí næst komandi.

Martin átti frábæran leik er Valencia tryggði sér oddaleikinn við Baskonia með sigri í öðrum leik liðanna á dögunum. Hann skoraði þá sex stig og gaf tvær stoðsendingar á þeim tíu mínútum sem hann spilaði í kvöld, áður en honum var skipt af velli.

Uppfært 21:00 : Valencia tapaði leik kvöldsins 76-59 og er því úr leik í keppni um spænska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×