Körfubolti

Martin með slitið kross­band: „Lífið er ekki alltaf sann­gjarnt“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin féll til jarðar og hélt um vinstra hnéð.
Martin féll til jarðar og hélt um vinstra hnéð. Stöð 2 Sport

Martin Hermannsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta og leikmaður Valencia á Spáni, fór meiddur af velli í leik Valencia í gærkvöld. Meiðslin litu illa út og nú hefur félagið staðfest að krossband í vinstra hné Martins sé slitið.

Valencia mætti Baskonia í 8-liða úrslitum ACB-deildarinnar á Spáni í gær en um er að ræða eina af sterkari deildum Evrópu. Valendia leiddi 37-31 þegar tæplega tvær mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. 

Martin féll þá til jarðar og greip um hnéð. Ljóst var að landsliðsmaðurinn var sárkvalinn og var hann í kjölfarið borinn af velli. 

Valencia var heillum horfið eftir að Martin var borinn til búningsherbergja og tapaði það á endanum leiknum, 59-76 lokatölur gestunum í Baskonia í vil sem eru komnir áfram í undanúrslit.

Leikmenn Valencia eru þar af leiðandi komnir í sumarfrí en ljóst er að Martin verður frá töluvert lengur en það. Valencia staðfesti nú í morgunsárið að um slitið krossband væri að ræða. Martin tjáði sig um meiðslin á Twitter-síðu sinni.

„Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn og skilaboðin sem ég hef fengið. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt. Önnur áskorun til að stíga yfir, get ekki beðið eftir að hefja endurhæfinguna. Sjáumst sem fyrst,“ segir hann brattur.

Það er ljóst að Martin verður því ekki með íslenska landsliðinu í komandi verkefnum. Ísland mætir Hollandi á Ásvöllum í byrjun júlí í síðasta leik sínum á fyrra stigi undankeppni HM. Liðið er komið áfram og hefur keppni á næsta stigi undankeppninnar í ágúst.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Martin hélt um hnéð er hann var borinn af velli

Martin Hermannsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta og leikmaður Valencia á Spáni, fór meiddur af velli í leik Valencia og Baskonia í 8-liða úrslitum í úrslitakeppninni á Spáni. Meiðslin litu illa út.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.