Innlent

Þú læknar ekki á­föll með því að troða tveimur fingrum inn

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Sigga Dögg er einn virtasti kynfræðingur landsins og setur hún spurningarmerki við það sem er kallað heilandi kynlífsvinna í andlega heiminum. Hún segir margt benda til þess að kynlífstengdir viðburðir á vegum Sólsetursins hafi mjög óljósan tilgang og gætu reynst skaðlegir fyrir fólk.
Sigga Dögg er einn virtasti kynfræðingur landsins og setur hún spurningarmerki við það sem er kallað heilandi kynlífsvinna í andlega heiminum. Hún segir margt benda til þess að kynlífstengdir viðburðir á vegum Sólsetursins hafi mjög óljósan tilgang og gætu reynst skaðlegir fyrir fólk. Vísir/Adelina

Kynfræðingur efast um réttmæti heilandi kynlífsvinnu, eins og tíðkast víða á Íslandi í nýaldarfræðum og andlega heiminum. Hún hefur fengið fjölda beiðna um að taka þátt í allskonar andlegum kynlífs-tengdum viðburðum, en afþakkar alltaf. 

Óljós tilgangur með kynlífstengdum viðburðum Sólsetursins

„Það sem er flókið er að það á að lækna eitthvað í gegn um kynlíf með yfirskini gamalla fræða. Mér finnst þetta pínu svona: Treystu ferlinu. Og allir triggerar eða stopparar sem koma, ekki hlusta á þá, það er bara egóið þitt að tala. Treystu mér, ég veit hvað er best fyrir þig. Og alltaf þegar einhver annar veit hvað er best fyrir mig, þá staldra ég við,“ segir Sigríður Dögg Arnardóttir, Sigga Dögg, einn virtasti kynfræðingur landsins. Forsvarsfólk Sólsetursins á Skrauthólum hefur oftar en einu sinni sett sig í samband við hana og óskað eftir því að hún taki þátt í eða leiði kynlífstengda viðburði þar sem mikil áhersla er lögð á nekt, kynlífstengda heilun og svokallað neo-tantra.

„Þetta er ekki aðferðafræði sem hugnast mínum fræðiheimi og samræmist ekki gildum mínum.“ 

„Ég hef ekki haft áhuga á því og allt sem mér finnst eitthvað óskilgreint, það er ekki skýrt hvernig reglurnar og ramminn er. Mikið sjáum bara til og þetta er bara í flæði. Þá segi ég bara nei. Við erum að vinna með viðkvæmt málefni hérna,“ segir Sigga Dögg. „Þegar ég átti samtalið um þetta við þau, þá spurði ég af hverju. Hvaða tilgangi þjónar þetta? Hvað ertu að reyna að segja hérna? Þú getur haft fyrirlestur um nekt, og talað um það og hvaða tilgangi það þjónar, en þú getur ekki mætt heim til fjölskyldunnar þinnar og tilkynnt: Nú ætlum við öll að vera allsber því það sé svo geggjað og vera ekki með neina líkamsskömm og bara lets go!

Og hvaða svör fékkstu þegar þú spurðir af hverju?

„Það var svona: Já, ókei. Ég hafði ekki pælt í því. Við ættum kannski að vera með fyrirlestur. Vilt þú vera með fyrirlestur? Nei, alls ekki. Þetta samræmist ekki mínum fræðum, þannig að nei, takk. Ég hvatti þau til að halda ekki þennan viðburð.“

Margt vanhugsað varðandi börnin

Í Kompás var varpað ljósi á ýmsar skuggahliðar andlega heimsins og sögðu þær Áróra Helgadóttir og Selma Kröyer báðar frá því hvernig þær lentu í ofbeldisfullum samböndum með mönnum sem kölluðu sig andlega leiðtoga. Tanya Lind Pollock, völva og heilari, gagnrýndi sömuleiðis í Kompás kynlífstengda viðburði á vegum Sólsetursins á Skrauthólum undir Esjunni, sem snúa sumir að sömuleiðis að ofskynjunarefnum og meira að segja börnum.

Tanya Lind, völva og heilari, hefur gagnrýnt forsvarsfólk Sólsetursins á Skrauthólum harðlega fyrir markaleysi, ofbeldi og óviðeigandi viðburði undanfarin misseri.Vísir/Arnar

„Svo erum við hluti af samfélagi. Og við getum ekki farið í eitthvað svona: Þið ætlið öll að vera æðislega frjálsleg. Allir ætla að vera naktir hérna, hér er fullt af fullorðnu fólki sem þið þekkið ekki, er ekki hluti af ykkar fjölskyldumengi og hvernig semjum við reglurnar og hvaða reglur? Af hverju erum við öll allsber hérna? Hvaða tilgangi þjónar það?“ segir Sigga Dögg. „En alltaf þegar einhver mætir á sjónarsviðið og segir: Ég hef sannleikann, þá hugsa ég mig um. Af hverju ættir þú að hafa sannleikann minn? Þú hefur sannleikann þinn vissulega.“

„Þetta væri mjög skrýtið ef læknir mundi segja við mann: Ég er læknir! Ég veit allt! Ég er hafinn yfir gagnrýni eða siðareglur. Veistu hvað ég er búin að lækna margar?“

„Þarna er þetta meira eins og ég er með hinn eina sannleika hérna og ef hann virkar ekki fyrir þig þá ert þú brotin.“

Fólkið á Sólsetrinu - Þeir Shaft og Kadesh (mennirnir á myndinni) segjast báðir vera tantra-heilarar og eiga að baki áratugareynslu af heilandi kynlífsvinnu. Í mjög löngu Youtube myndbandi útskýra þeir, Shaft sérstaklega, hvernig samfélagið misskilur þá og að fólk þurfi bara að opna hug sinn, hjarta og líkama til að sjá hinn eina sannleik. Skjáskot af YouTube

Strangar reglur og mörk í hópakynlífi

Sigga Dögg undirstrikar að þegar skipulagt kynlíf er annars vegar, sérstaklega hópakynlíf, þá eru yfirleitt ákveðnar og nokkuð strangar reglur í gildi um hvað má og hvað má ekki.

„Í þess konar samfélögum, sem eru bara stór hérna á Íslandi, en það er talað lítið um það vegna þess að það er meðal annars skömm. Hvað ætlum við að gera, hvernig ætlum við að gera það, hver má gera hvað með hverjum. Reglur um drykkju. En það er enginn að segja, ég ætla að leggjast með þér til að heila þitt fortíðarsár. Eða fortíðardraugana þína. Þetta er það sem þetta er,“ segir hún. Ef þú vilt taka hugvíkkandi efni og stunda kynlíf, gerðu það þá bara.“ 

„Ég segi ekki við fólk: Nú mun ég lækna þig með píkunni minni. Og þú verður læknuð. Og ef þú upplifir það ekki eftir á, þá er eitthvað að þér.“

„Það er erfitt að setja mörk. Og þetta er nýtt tungutak fyrir okkur, að setja fólki mörk. Hvað þá ef þetta er einhver sem þú leggur allt traust þitt á, en svo er sagt við þig: Þú veist náttúrulega að þú ert skemmd. Ekki gleyma því. Og þú veist alveg að þú ert skemmd, þú mannst það vel. Þess vegna ertu þarna. Það mundi enginn í þerapíu vinna svona,“ undirstrikar Sigga Dögg. 

„Eins og við höfum séð í öllum költum: Ég brýt, ég byggi upp. Ég brýt, ég byggi upp. Og svo kærleikskæfing . Þetta er bara gömul saga og ný, sem er auðvitað til á Íslandi.“

„Við sjáum þetta núna þegar er verið að opna á alls konar umfjallanir um trúarbrögð. Ég hitti unglinga á íslandi sem segjast vera í ákveðinni trú og að þau megi ekki hitt og þetta, eitthvað sé ógeðslegt og eitthvað sé rangt. Og það getur verið allt frá sjálfsfróun, í samkynhneigð, sambönd og tilhugalíf. Þetta eru íslenskir unglingar.“

Sigga Dögg hefur fengið fyrirspurnir frá íslenskum unglingum sem eru aldnir upp við strangt trúarlegt uppeldi og fá þau skilaboð frá foreldrum sínum að sjálsfróun, sambönd og samlífi sé syndugt.Vísir/Adelina

Efast um heilandi kynlífsvinnu 

Sigga Dögg segir siðareglur kynfræðinga mjög mikilvægar, þar sem fræðaheimurinn er mjög stór, ólíkur innbyrðis og síbreytilegur. Kynlífsrannsóknir benda allar til þess að fræðimennirnir eigi ekki að stunda kynlíf með fólkinu sem það er með í meðferð, heldur einungis leiðbeina því.

„Ég veit bara ekki hvort við getum talað um heilandi kynlífsvinnu. Ég set spurningamerki við það. Og ef þú ætlar að fara að vinna með eitthvað trauma, þá myndir þú ekki vinna með það í gegn um kynlíf heldur allt öðruvísi.“

„Ég fer ekki og segi: Nú mun ég lækna þig með píkunni minni. Og þú verður læknuð. Og ef þú upplifir það ekki eftir á, þá er eitthvað að þér.“

„Af því að við setjum þetta undir yfirskinið laga, hjálpa, heila. Sama hvaða orð við notum, þá eru til aðrar leiðir til þess. Hættu að blanda þessu saman.“

„Nei nei nei, það þarf ekki að heila neitt trauma með því að troða tveimur fingrum inn.“

„Ef það er ekki heiðarleiki, gagnsæi og fólk fær ekki að hlusta á tilfinningarnar sínar og upplifunina sína, og fær ekki að sitja bara með það. Þá er ég bara… eigum við ekki bara að skoða þetta aðeins og sleppa þessu kannski?“

Lengri útgáfu af viðtalinu við Siggu Dögg má sjá í spilaranum hér að neðan: 

Klippa: Sigga Dögg kynfræðingur gagnrýnir Sólsetrið

Tengdar fréttir

Óttast um öryggi sitt á Skrauthólum og vita aldrei hvað gerist næst

Hjónin á Skrauthólum eru komin með nóg af nöktum nágrönnum, níðstöngum og fólki á ofskynjunarlyfjum í bakgarðinum hjá sér. Þau búa nokkrum metrum frá Sólsetrinu, andlegu setri á landi Skrauthóla, og segjast hafa reynt allt til að ná eyrum forstöðukonunnar þar, sveitarstjórnarfólks og yfirvalda, án árangurs. Þau óttast um öryggi sitt, barna sinna og dýra.

Ofbeldi og illska í skjóli andlegrar vinnu

Kompás ræddi við fjölda fólks sem hefur orðið fyrir ofbeldi, svikum og misbeitingu í andlega heiminum við það eitt að reyna að leita sér aðstoðar í góðri trú.

Heimilisofbeldi, dulbúnar orgíur og stjórnlaus tripp í nafni andlegrar vinnu

Eitraðir leiðbeinendur og vanhæfir kennarar skilja margir eftir sig slóð af sköðuðu fólki sem leitaði til þeirra í góðri trú. Ekkert eftirlit er með starfseminni og getur í raun hver sem er titlað sig leiðbeinanda. Töluvert er um að andleg vinna sé sett í búning einhvers konar heilunar, heimilisofbeldi getur verið kallað skuggavinna, og ef fólk er ekki til í allt þá er það ekki nógu vakandi. 

Kakókennari lokkaði fólk úr 12 spora samtökum inn í markalausar athafnir

„Þetta minnti mig á neysluumhverfi. Þetta var bara sjúkt,“ segir Kolbeinn Sævarsson. Hann og Selma Kröyer sögðu í Kompás frá kynnum sínum af manni sem þóttist vera hæfur leiðbeinandi til að stjórna kakóathöfnum, en reyndist svo vera ofbeldismaður í leit að athygli.

Sam­veru­stund með stjörnu­spekingi breyttist í mar­tröð

Fyrir nokkrum mánuðum fóru nokkrar vinkonur til stjörnuspekings í persónulegan lestur. Hann auglýsti sig menntaðan í faginu og bauð þeim rúmlega þriggja stunda kvöldstund fyrir nokkra tugi þúsunda. Maðurinn sagðist meðal annars skilja Hitler og nasistana, sakaði vinkonurnar um að hafa skaðað börnin sín svo mikið að þau væru orðin einhverf og réðst persónulega á eina þeirra svo gróflega að hún brast í grát.

Gísli stjörnuspekingur búinn að loka vefsíðu Gáruáhrifa

Gísli Gunnarsson Bachmann, stjörnuspekingur og jógakennari, er búinn að loka heimasíðu og Facebook-síðu Gáruáhrifa. Það gerði hann eftir að myndskeið af honum var birt í Kompás þar sem hann er að beita skjólstæðing sinn andlegu ofbeldi undir merkjum stjörnulesturs. Fleiri konur hafa stigið fram vegna mannsins. 

„Þetta var ofbeldi, ekki einhver andleg vinna“

Áróra Helgadóttir, heilbrigðisverkfræðingur og jógakennari, sagði í Kompás frá reynslu sinni af eins konar sértrúarsafnaðarsamfélagi utan borgarmarkanna þar sem hún var beitt ítekuðu ofbeldi, gaslýsingu og kærleikskæfingu. Hún komst loks í burtu með klækjum, eftir að hafa misst tengslin við raunveruleikann og hætt að trúa sínu eigin innsæi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.