Innlent

Dæmi um að fólk nái ekki í Neyðar­línuna á fá­förnum vegum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
IMG_4995

Ekkert farsímasamband er á yfir 200 kílómetrum af vegum landsins og eru dæmi um að fólk í neyð hafi ekki náð sambandi við neyðarlínuna vegna þessa. Neyðarlínan hefur hafið samstarf við þrjú farsímafyrirtæki að bæta þar úr.

Neyðarlínan og farsímafélögin Nova, Síminn og Vodafone hafa tekið höndum saman um að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á landinu þannig að öruggt sé að sem víðast verði hægt að ná sambandi við neyðarlínuna.

Neyðarlínan mun setja upp fjarksiptaaðstöðu og nauðsynlegan búnað eins og mastur og rafmagn á stöðum þar sem markaðslegar forsendur eru ekki fyrir hendi vegna lítillar farsímanotkunar. Sendibúnaði verður komið fyrir og munu farsímar viðskiptavina símfyrirtækjanna hafa jafnan aðgang að sendinum.

„Við vitum það að fólk finnur fyrir miklu óöryggi að geta ekki hringt í neyðarlínuna á nokkrum stöðum á landinu. Þetta eru ekki margir staðir miðað við önnur lönd. Við erum með eitt besta farsímakerfi í heiminum en það er samt sem áður þannig að 98 prósent vega eru með farsímakerfi en ekki 2 prósent og það jafngildir alveg yfir 200 kílómetrum,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Samstarfið innsiglað.sigurjón ólason

Um mikið öryggismál er að ræða og segir framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar að það hafi komið upp að fólk hafi ekki náð í neyðarlínuna vegna sambandsleysis.

„Jájá það eru mjög margir og síðasta dæmið úr Ísafjarðardjúpi þar sem varð banaslys og þrír létust, innhringjandi náði ekki að hringja inn vegna þess að samskiptin við mismunandi farsímafélög voru ekki að virka, svokallað reiki þannig þetta er mjög mikilvægt. Þetta er mjög stórt skref í öllu samhengi,“ Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×