Handbolti

Stór­leikur Janusar Daða dugði ekki gegn Teiti Erni og fé­lögum | Melsun­gen tapaði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Janus Daði í leik kvöldsins.
Janus Daði í leik kvöldsins. Martin Rose/Getty Images

Það var Íslendingaslagur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld er Flensburg og Goppingen mættust. Þá tapaði Íslendingalið Melsungen fyrir Hannover.

Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk og lagði upp fjögur til viðbótar er Flensburg vann Goppingen með fimma marka mun, 26-21. Frábær fyrri hálfleik heimamanna skóp sigurinn en gestirnir skoruðu aðeins sjö mörk fyrstu 30 mínútur leiksins. Gestirnir bitu frá sér en það dugði ekki til, leiknum lauk með sigri heimamanna.

Janus Daði Smárason var langbesti maður Goppingen í leiknum en ásamt því að skora sex mörk þá gaf hann fimm stoðsendingar.

Melsungen tapaði með sjö marka mun á heimavelli er Hannover var í heimsókn, lokatölur 22-29. Alexander Petersson gaf tvær stoðsendingar en hvorki hann né Arnar Freyr Arnarsson voru meðal markaskorara Melsungen.

Flensburg er í 3. sæti deildarinnar með 44 stig, sex stigum minna en topplið Magdeburgar. Goppingen er í 5. sæti með 33 stig og Melsungen er í 8. sæti með 29 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.