Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd eftir að fréttir bárust af því að ungur drengur, sem er dökkur á hörund, hafi tvívegis verið stöðvaður af lögreglu vegna ábendinga um að hann væri hinn tvítugi Gabríel Douane Boama sem slapp úr haldi lögreglu í fyrrakvöld.
Nokkrir hafa sakað lögreglu um kynþáttafordóma vegna þessa en Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir engar grunsemdir vakna upp í þessu máli að lögreglan hafi verið rasísk.
„Hins vegar get ég ekkert útilokað það að það séu fordómar hjá lögreglunni líkt og annars staðar, það væri bara barnaskapur að halda það að við séum ekki fordómafull, bara almennt. Við erum öll með einhverja fordóma,“ segir Sigríður.
Hún tekur fram að aðstæður séu sérstakar í þessu máli þar sem um ungmenni og minnihlutahóp er að ræða.
„Það gerir auknar kröfur til okkar þannig við þurfum bara hreinlega að reyna að finna nýjar aðferðir til að ná markmiðum okkar en passa að ungmennin verði ekki útsett að óþörfu. Þannig það er að sem samtöl síðustu daga hafa gengið út á,“ segir hún enn fremur.
„En við höfum ekkert val, við verðum að leita að manni sem er eftirlýstur,“ segir Sigríður.
Viðbrögð lögreglu hafi ekki verið röng
Meðal þeirra gagnrýni sem hefur borist er að vopnaðir lögreglumenn hafi verið sendir inn í strætisvagn í gær þar sem ungi drengurinn var, þar sem þeir höfðu fengið ábendingu um að Gabríel var um borð. Svo reyndist ekki vera og yfirgáfu lögreglumenn því vagninn.
„Þarna erum við að leita að hættulegum einstaklingi sem er grunaður um að hafa jafnvel vopn um hönd, hann hefur gerst sekur um vopnaðar árásir. Það þýðir að við setjum ekki óvopnaða lögreglumenn í þessi verkefni,“ útskýrir Sigríður Björk.
Hún segir að í tilvikinu sem um ræðir hafi verið óskað eftir aðkomu sérsveitar til að tryggja bæði öryggi lögreglumanna en ekki síður annarra. „Þannig að í þessu tilviki var bara verið að fara eftir þeim verkferlum sem eru viðhafðir í nákvæmlega svona málum,“ segir hún.
Þá segist hún ekki telja að viðbrögð lögreglu hafi verið röng en viðurkennir að staða ungmenna sem tilheyra minnihlutahópum sé ekki góð og að þeir séu kvíðnir yfir því að lögregla hafi afskipti af þeim.
„Við höfum enga aðra kosti en að fylgja eftir ábendingum. Við erum að leita að hættulegum manni en að sama skapi er þetta mjög erfitt fyrir þessa ungu menn sem eru saklausir og þurfa að sæta þessum afskiptum, eins og þessi ungi maður,“ segir Sigríður.