Sport

„Hefðum tapað þessum leik í október“

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Ingi var afar ánægður með sigurinn
Rúnar Ingi var afar ánægður með sigurinn Vísir/Vilhelm

Njarðvík jafnaði einvígið gegn Fjölni með sigri í Ljónagryfjunni 80-66. Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var afar ánægður með sigurinn. 

„Við spiluðum frábæra vörn og viljum gefa okkur út sem besta varnarlið deildarinnar, bæði sem lið og einstaklingar. Við skoruðum 80 stig og er fagnaðarefni að við fundum lausnir gegn vörn Fjölnis,“ sagði Rúnar ánægður með sigurinn.

Rúnar var afar ánægður með Helenu Rafnsdóttur og hrósaði henni fyrir að svara lélegum leik í Dalhúsum með öflugri frammistöðu í kvöld.

„Helena Rafnsdóttir átti ekki sinn besta leik í Dalhúsum en kemur eins og alvöru töffari í næsta leik með svakalegu framlagi.“

Njarðvík byrjaði leikinn afar vel og komst tíu stigum yfir eftir tæplega tveggja mínútna leik sem gladdi Rúnar Inga.

„Við töluðum um það fyrir leik að þegar við spiluðum við Fjölni síðast í deildinni komust við tuttugu stigum yfir í byrjun og vildum við eiga þetta fyrsta högg aftur í kvöld.“

Fjölnir kom til baka í þriðja leikhluta og komst yfir á tímabili en Njarðvík lét það ekki á sig fá og saltaði fjórða leikhluta. 

„Fjölnir náði áhlaupi og komst yfir en við svöruðum því sem er karakter einkenni. Ef þetta hefði gerst í október þá hefðum við tapað. Við höfum unnið vel í andlega þættinum og er ég ótrúlega stoltur af mínu liði,“ sagði Rúnar Ingi að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×