Skoðun

Virkni er velferð

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar

Reykjavík réðst í markvissar viðspyrnu aðgerðir í covid og einn liður í þeim voru aðgerðir til að bregðast við auknu atvinnuleysi og fjölgun fólks sem þurfti að reiða sig á fjárhagsaðstoð Reykjavíkur til framfærslu.

Virkni

Komið var á Virknihúsi sem heldur utanum fjölmörg úrræði á vegum borgarinnar fyrir fólk sem fær fjárhagsaðstoð og atvinnu- og virknimiðlun sem hefur það hlutverk að skapa störf og um leið halda vel utan um fólkið sem fær störfin. Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagið grípi það fólk sem dettur af vinnumarkaði eða á erfitt með að komast inn á hann. Þau þurfa einstaklingsbundna sérhæfða aðstoð, stuðning og tækifæri til að komast í virkni eða vinnu, með því að byggja sig upp og öðlast trú á eigin getu, eftir oft röð hafnanna á vinnumarkaði eða í menntakerfinu.

Vinna

Markviss atvinnu- og virknimiðlun skilaði 240 tímabundnum ráðningum á 18 mánuðum og 72% þeirra sem fengu vinnu hafa ekki snúið tilbaka á fjárhagsaðstoð eftir að tímabundinni ráðningu lauk, sem er mjög gleðilegt svo þessi tími styrki þau og auki möguleika þeirra í framtíðinni.

Stór hluti fólks sem fær fjárhagsaðstoð hafa verið lengi utan vinnumarkaðar, eiga litla eða enga atvinnusögu, eru nýflutt til landsins þ.m.t flóttamenn sem eru að hefja nýtt líf hér á landi. Því höfum við ákveðið að samþætta starfsemi atvinnu- og virknimiðlunar og Virknihúss næstu 2 ár til að ná að styðja sem flesta í vinnu. Við munum sérstaklega beina sjónum okkar að ungu fólki og flóttafólki.

Tækifæri

Þetta er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem Reykjavík veitir nú þegar þessum hóp fólks. Nú eru um 280 manns í úrræðum Virknihússins sem bíða frekari tækifæra í samfélaginu til að láta til sín taka á vinnumarkaði eða í námi og yfir 100 í starfi með stuðningi sem ég vil sjá fá tækifæri á almennum vinnumarkaði sem allra fyrst.

Meginmarkmið velferðarstefnu Reykjavíkur er að auka lífsgæði íbúa og stuðla að því að allir Reykvíkingar eigi kost á að lifa með reisn. Þessar markvissu aðgerðir til að styðja fólk í vinnu og virkni eru liður í því að tryggja að Reykjavík sé sannarlega fyrir okkur öll.

Höfundur er formaður Velferðarráðs Reykjavíkur og varaformaður Samfylkingarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.