Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan - Vestri 99-66 | Göngu­ferð í Ás­garðinum fyrir Stjörnuna

Árni Jóhannsson skrifar
Stjörnumenn unnu góðan sigur í kvöld.
Stjörnumenn unnu góðan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Leikur Stjörnunnar og Vestra í Ásgarði var fyrir fram ekki sá mest spennandi í 21. umferð Subway deildar karla í körfubolta sem lauk í kvöld. Vestra menn ný fallnir úr deildinni og Stjörnumenn enn í séns á að ná heimavallarrétti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og tilbúnir í að kvitta fyrir tap á móti Njarðvík í síðustu umferð. 

Úr varð 33 stiga sigur heimamanna 99-66 í leik þar sem allir leikmenn á skýrslu fengu að koma inn á og allir nema einn komst á blað.

Menn virtust vera mjög rólegir í tíðinni á fyrstu mínútum leiksins en skotnýting liðanna var ekki til útflutnings og sást það sérstaklega á því að fyrsti leikhluta lauk í stöðunni 17-10. Stjörnumenn sýndu þó að þeir voru betra körfubolta liðið og þegar þeir skiptu um gír þá juku þeir við forskot sitt en það var í raun og veru saga leiksins.

Robert Eugene Turner III var fljótt orðinn stigahæstur en svo tók Hilmar Smári Henningsson við keflinu í öðrum leikhluta og bæði skoraði og mataði félaga sína til að auka forskot heimamanna jafnt og þétt á meðan annar leikhluti leið. 

Liðin hleyptu nærrum því öllum inn á völlinn í fyrri hálfleik en undir lok hans hentu Stjörnumenn niður þremur þristum í röð til að breyta stöðunni úr 33-19 í 42-23 mjög fljótlega og þannig endaði fyrri hálfleikurinn.

Vestri kom örlítið ákveðnari út í seinni hálfleikinn og náðu að skora betur og meira í þriðja leikhluta en í fyrri hálfleik en þegar Stjarnan tók við sér þá juku þeir við forskot sitt. Forskotið komið upp í 71-44 þegar þriðja leikhluta lauk og fjórði leikhluti einungis formsatriði.

Allir leikmenn liðanna fengu mínútur í kvöld og sá sem nýtti þær hvað best var Kristján Fannar Ingólfsson leikmaður Stjörnunnar. Maður sá hvernig sjálfstraust hans jókst eftir því sem leið á leikinn en hann endaði með 20 stig og nýtti 60 prósent af skotunum sínum utan af velli og 71 prósent af vítum sínum. 

Það var í raun og veru hápunktur leiksins að mati blaðamanns. Leiktíminn leið út og 99-66 sigur Stjörnunnar staðreynd. Stjörnumenn náðu því að setja pressu á liðin fyrir ofan sig en sitja í sjötta sæti með 24 stig en Tindastóll og Valur hafa 26 stig eftir jafnmarga leiki og Keflavík með sama stigafjölda en leik minna.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan er betra körfuboltalið. Þannig er stutta svarið en þegar kafað er dýpra þá voru þessir helstu tölfræðiþættir betri og hærri hjá Stjörnunni. Þeir unnu frákastabaráttuna, baráttuna um stoðsendginarnar, vörðu skotin og skotnýtinguna sannfærandi og fengu að auki 50 stig af bekknum sínum.

Hvað gekk illa?

Það sem helst gekk illa var skotnýting Vestra. Þeir voru með 5% þriggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik og var heildar skotnýting ekki nema 35% þegar upp var staðið.

Bestir á vellinum?

Eins og áður sagði þá skoraði Kristján Fannar Ingólfsson 20 stig og nýtti skot sín heldur betur vel eins og mínúturnar sem hann spilaði í dag. Framlagshæstur var Hilmar Smári Henningsson með 22 punkta en honum næstu var Ragnar Nathanaelsson með 21 framlagspunkt en hann tók 14 fráköst, varði fimm skot og skoraði fjögur stig í dag.

Hjá Vestra var Nemanja Knezevic með 12 stig og 10 fráköst.

Hvað næst?

Vestri tekur á móti ÍR í sínum síðasta leik í Subway deildinni í bili en Stjörnumenn fara í Smárann til að etja kappi við Breiðablik í nágrannaslag.

Við gáfum þeim ekki bardaga

Pétur Már, þjálfari Vestra.Vísir/Hulda Margrét



Þjálfari Vestra var náttúrlega súr í bragði með tap sinna manna en hann var spurður að því hvernig mat væri hægt að leggja á svona leik eins og fór fram í kvöld.

„Við metum það bara þannig að við töpuðum með 33 stigum og það er eiginlega bara eina. Við gáfum þeim ekki bardaga og þeir tóku bara leikinn yfir og því fór sem fór.“

Pétur var þá spurður út í hvatningu leikmanna og hvort það væri erfitt að hvetja menn til dáða þegar liðið væri ný fallið úr deildinni.

„Ég var nú að vona að þeir myndu hvetja sig sjálfir. Ég á ekki að þurfa að vera með peppræðu fyrir leikmenn sem eru að fá fullt af mínútum í kvöld og kannski að stíga sín fyrstu skref í deildinni. Ef það hvetur menn ekki til dáða þá veit ég ekki hvað gerir það.“

Ken-Jah Bosley tók ekki þátt í síðari hálfleik en hann fékk byltu í fyrri hálfleik og var Pétur spurður út í ástandið á honum

„Hann meiddi sig í síðasta leik og hefur verið meiddur í síðustu leikjum. Við verðum bara að skoða það hvort hann verði með á fimmtudaginn.“

Að lokum var Pétur spurður út í fréttir dagsins varðandi fjárhagsvandræði körfuknattleiksdeildarinnar og hvort það hefði einhver áhrif á liðið.

„Nei. Við erum bara hérna að reyna að spila körfubolta. Ég ætla ekki að svara neinum spurningum varðandi rekstur körfuknattleiksdeildarinnar.“


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira