Körfubolti

Veigar Áki: „Það var kominn tími á að við myndum vinna einn leik“

Atli Arason skrifar
Veigar Áki Hlynsson
Veigar Áki Hlynsson Bára Dröfn

Veikar Áki Hlynsson var með 100% skotnýtingu þegar hann gerði 15 stig ásamt því að taka 8 fráköst og gefa 4 stoðsendingar í 35 stiga stórsigri á Njarðvík í kvöld, 90-125.

„Það var kominn tími á að við myndum vinna einn leik,“ sagði Veigar Áki, leikmaður KR, í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við spiluðum góða vörn og tókum fráköst. Í síðasta leik á móti Keflavík fengu þeir að taka of mörg sóknarfráköst. Við mættum til leiks í dag, sóttum fráköstin og hittum vel. Við spiluðum saman sem liðheild og þá er stemningin með okkur.“

Það hefur verið stígandi í spilamennsku KR undanfarið en þrátt fyrir það hafa sigurleikirnir ekki vera að detta með þeim.

„Við áttum að vinna síðustu tvo leiki að okkar mati og við vorum í alvöru hættu á að missa af úrslitakeppninni. Þannig við komum bara hingað tilbúnir að vinna og spila sem lið.“

Eftir brösugt gengi framan af tímabili er KR nú með örlögin í eigin höndum með sigrinum í kvöld varðandi sæti í úrslitakeppninni. KR-ingar eru í áttunda sæti með 18 stig.

„KR á alltaf að vera í úrslitakeppninni og við viljum vera þar. Það er bara markmiðið,“ bætti ákveðinn Veigar Áki við.

Breiðablik er einungis tveimur stigum á eftir KR og halda áfram að anda ofan í hálsmál Vesturbæinga en Blikar eiga innbyrðis viðureignir gegn þeim svarthvítu. KR-ingar mega því ekki misstíga sig aftur en næsti leikur þeirra verður ekki auðveldur, gegn Íslandsmeisturum Þórs frá Þorlákshöfn.

„Við förum í þann leik til að vinna hann. Þeir fóru illa með okkur í fyrri leiknum og við ætlum að svara fyrir það og taka þá í þetta skipti,“ sagði Veigar Áki Hlynsson, leikmaður KR.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×