Sport

Skilorðsbundið bann fyrir að bomba spaðanum í stól dómarans

Sindri Sverrisson skrifar
Spaðinn var ansi illa farinn eftir að Alexander Zverev hafði lokið sér af. Áhorfandi fékk spaðann sem minjagrip.
Spaðinn var ansi illa farinn eftir að Alexander Zverev hafði lokið sér af. Áhorfandi fékk spaðann sem minjagrip. AP/Marcos Dominguez

Þýski tenniskappinn Alexander Zverev hefur verið úrskurðaður í átta vikna skilorðsbundið bann og hefur fengið viðbótarsekt upp á 25.000 Bandaríkjadali eftir að hann missti algjörlega stjórn á skapi sínu á Opna mexíkóska mótinu í febrúar.

Zverev hafði áður fengið 40.000 dala sekt og verið hent út úr mótinu eftir að hann lamdi tennisspaða sínum ítrekað í stól dómarans, fullur bræði þar sem hann taldi dómarann hafa gert slæm mistök.

Zverev, sem er í 3. sæti heimslistans, var að keppa í tvíliðaleik með Marcelo Melo gegn þeim Lloyd Glasspool og Harri Heliovaara. Zverev og Melo töpuðu leiknum og að mati Zverevs skipti sköpum að dómarinn dæmdi boltann eitt sinn inni en ekki úti, á mikilvægu augnabliki.

ATP, samtök atvinnutennisspilara, sendu í dag frá sér yfirlýsingu um að Zverev hefði gerst sekur um ofsafengna framkomu og fengi því fyrrnefnt bann og sekt.

Refsingin er hins vegar skilorðsbundin í eitt ár svo að ef að Zverev heldur sig á mottunni fram til 22. febrúar á næsta ári þarf hann ekki að fara í bann né greiða viðbótarsektina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×