Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Breiðablik 136 - 116| Fimmti sigur meistaranna í röð

Andri Már Eggertsson skrifar
Vísir/Bára

Íslandsmeistararnir fóru illa með nýliðana. Þór Þorlákshöfn gerði 77 stig í fyrri hálfleik og endaði á að vinna Breiðablik með tuttugu stigum 136 - 116.

Fyrri hálfleikur kvöldsins spilaðist nánast alveg eins og fyrri hálfleikurinn í Keflavík-Breiðablik síðasta mánudag. Breiðablik byrjaði leikinn betur og var fjórum stigum yfir eftir tæplega fimm mínútur.

Breiðablik gaf síðan eftir og gerði Þór Þorlákshöfn þrettán stig í röð og komst í bílstjórasætið. Eftir þetta áhlaup litu Íslandsmeistararnir aldrei um öxl.

Annar leikhluti Þórs var ótrúlegur. Daniel Mortensen var allt í öllu og gerði 28 stig á fjórtán mínútum. Kópavogsbúar áttu engin svör við hans leik.

Staðan í hálfleik var 77-54. Breiðablik hefur fengið á sig alls 151 stig í síðustu tveimur fyrri hálfleikjum.

Breiðablik gerði vel í að leggja ekki árar í bát líkt og á mánudaginn þar sem þeir létu Keflavík valta yfir sig og biðu einfaldlega eftir að leikurinn myndi klárast. Það var ekki raunin í kvöld heldur spilaði Breiðablik töluvert betur í síðari hálfleik sem gestirnir unnu með þremur stigum.

Þrátt fyrir að Breiðablik vann seinni hálfleikinn voru úrslit leiksins aldrei í hættu. Þór Þorlákshöfn átti alltaf svör þegar Breiðablik minnkaði forskot þeirra. 

Íslandsmeistararnir unnu á endanum tuttugu stiga sigur 136 - 116. Þetta var fimmti sigur Þórs í röð. 

Af hverju vann Þór Þorlákshöfn?

Fyrri hálfleikur Þórs var stórkostlegur. Þór átti í engum vandræðum með hraðann í Breiðablik og refsuðu Íslandsmeistararnir nánast í hverri einustu sókn. 

Þór Þorlákshöfn gerði þrettán stig í röð í fyrsta leikhluta og litu aldrei um öxl eftir það og enduðu á að gera 136 stig í leiknum. 

Hverjir stóðu upp úr?

Daniel Mortensen fór á kostum í kvöld. Hann skoraði 28 stig á fjórtán mínútum í fyrri hálfleik. Daniel endaði með tvöfalda tvennu þar sem hann gerði 47 stig og tók 13 fráköst.

Ronaldas Rutkauskas endaði einnig með tvöfalda tvennu. Hann gerði 18 stig og tók 14 fráköst. 

Everage Lee Richardson var atkvæðamestur í liði Breiðabliks. Everage gerði 35 stig, tók 6 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. 

Hvað gekk illa?

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, sagði fyrir leik að það væri mikilvægt að taka sóknarfráköst í kvöld til að hægja á Blikunum. Það gekk eftir og tók Þór Þorlákshöfn 17 sóknarfráköst. 

Sama hvernig leikplan Breiðabliks er þá er ekki boðlegt að fá á sig yfir 70 stig á tuttugu mínútum annan leikinn í röð. 

Breiðablik hefur staðið sig vel á heimavelli í vetur en liðinu hefur gengið bölvanlega á útivelli. Breiðablik hefur leikið níu útileiki og aðeins unnið einn sem var gegn Vestra. 

Hvað gerist næst?

Næst á dagskrá er landsleikjahlé. Þór Þorlákshöfn fer norður og mætir Þór Akureyri föstudaginn 4. mars klukkan 19:15. 

Fimmtudaginn 3. mars mætast Breiðablik og Njarðvík í Smáranum klukkan 19:30. 

„Fyrsta skiptið í vetur þar sem ég þurfti að taka leikhlé til að hvíla“

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, var svekktur með tuttugu stiga tap gegn Þór Þorlákshöfn.

Pétur Ingvarsson var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét

„Þetta er okkar leikplan en þeir hittu bara mjög vel. Þeir eru stærri, sterkari og fljótari en við. Ég þurfti í fyrsta skiptið í vetur að taka leikhlé til að hvíla mitt lið.“ 

„Þór Þorlákshöfn hefur verið saman sem lið frá því í byrjun ágúst ásamt því þá bættu þeir við leikmanni og vorum við að mæta liði sem stefnir á Íslandsmeistaratitilinn,“ 

Pétur var ánægður með Breiðablik í seinni hálfleik þar sem hans lið gafst ekki upp.

„Mínir menn gáfust ekki upp eins og í síðasta leik. Strákarnir börðust og vorum við óheppnir að missa Danero Thomas í villuvandræði því með hann inn á unnum við með tólf stigum og hefði munurinn hugsanlega verið minni ef hann hefði ekki fengið þessar villur,“ sagði Pétur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira