Erlent

Eiga nokkra hættulega metra eftir til barnsins í brunninum

Samúel Karl Ólason skrifar
Björgunarmenn notuðu stórar vinnuvélar til að grafa inn í hlíðina þar sem brunnurinn er. Svo verða síðustu metrarnir farnir varlega svo jarðvegur hrynji ekki yfir barnið.
Björgunarmenn notuðu stórar vinnuvélar til að grafa inn í hlíðina þar sem brunnurinn er. Svo verða síðustu metrarnir farnir varlega svo jarðvegur hrynji ekki yfir barnið. EPA/Jalal Morchidi

Björgunarsveitir í Marokkó eru að nálgast fimm ára dreng sem hefur setið fastur í brunni í fjóra daga. Marokkóska þjóðin hefur fylgst náið með björgun drengsins sem heitir Rayan og féll í brunninn á þriðjudaginn.

Brunnurinn er 32 metra djúpur en hann er það þröngur að ekki er hægt að síga ofan í hann og sækja barnið. Myndavél var slakað niður í brunninn og staðfest að Rayan hafði lifað fallið af og er einnig búið að senda mat og súrefni til hans.

Sjá einnig: Þjóðin fylgist agn­dofa með leit að fimm ára dreng sem féll í brunn

Vegna þess hve brunnurinn er þröngur og af ótta við að veggir brunnsins gætu hrunið yfir Rayan var ákveðið að grafa inn í hlíðina þar sem brunnurinn er og koma að drengnum frá hlið.

Samkvæmt frétt Reuters er vitað til þess að Rayan hafi verið á lífi fyrr í dag.

Í samtali við SNRT, sem er ríkissjónvarp Marokkó, segja forsvarsmenn leitarinnar að búið sé að ná dýpi brunnsins og eftir sé að grafa nokkra metra inn í brunninn. Það sé þó erfitt verk og tryggja þurfi að jarðvegur hrynji ekki yfir Rayan.

Þyrla er á vettvangi og stendur til að fljúga Rayan á sjúkrahús um leið og hann er laus úr brunninum.

Hér má sjá myndefni frá SNRT.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×