Rússar fóru að færa meira herlið að landamærum Úkraínu fyrir um tveimur mánuðum.
Síðan hefur spenna magnast mjög á svæðinu og sífellt fleiri fréttir berast af því að Rússar búi sig undir innrás í landið.
Joe Biden Bandaríkjaforseti gekk svo langt í gær að segja að hann teldi víst að Rússar myndu taka það skref.
Jón Ólafsson, stjórnmálaheimspekiprófessor við Háskóla Íslands sem hefur sérhæft sig í málefnum Rússlands, telur ólíklegt að Bandaríkjaforseti hafi endilega mikið fyrir sér í sínum yfirlýsingum en vilji skerpa betur á alvarleika stöðunnar fyrir alþjóðasamfélaginu.
Gígantískt skref að ráðast inn í landið
Hann segir þó að mjög margt bendi til að Rússar séu tilbúnari nú en nokkru sinni fyrr að ráðast inn í Úkraínu.
„Það að fara inn í Úkraínu með herlið er alveg gígantískt skref fyrir Rússa,“ segir Jón.
Þeir hafi til dæmis aldrei viðurkennt að hafa ráðist á Úkraínumenn og þegar þeir tóku Krímskaga 2014 var sú aðgerð máluð upp sem björgunaraðgerð fyrir fólkið þar.

Ef Rússar gengju svo langt segir Jón ómögulegt að spá fyrir um hvort önnur lönd myndu blanda sér í stríðið.
„Nú spá því flestir að í raun myndu Vesturlönd ekki ganga svo langt en þetta er bara svo alvarlegt mál, þetta er svo stór breyting á þessu viðkvæma samkomulagi um landamæri sem hefur verið að smáriðlast síðan kalda stríðinu lauk að afleiðingarnar eru bara ófyrirsjáanlegar,“ segir Jón.
Er þá ekki hætta á því að heimsstyrjöld brjótist jafnvel út?
„Ætli það... En svona spenna getur samt farið úr böndunum. Það er það sem er alltaf stóra hættan í þessu,“ segir Jón.