Sport

Gunnar: Þetta leit ekki vel út átta mörkum undir

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar var ánægður með fyrsta sigurinn á árinu 2022
Gunnar var ánægður með fyrsta sigurinn á árinu 2022 Vísir/Hulda Margrét

Haukur unnu Val með tveimur mörkum 26-24. Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka, var afar ánægður með sigurinn og þá sérstaklega síðari hálfleik. 

„Í byrjun leiks fáum við á okkur sjö mörk í röð. Við vorum á hælunum í vörninni, við vorum að búa okkur til góð færi sem okkur tókst ekki að nýta og refsaði Valur okkur með hraðaupphlaupum.“ 

„Þetta leit ekki vel út þegar við lentum átta mörkum undir, en okkur tókst að klóra í bakkann rétt fyrir hálfleik,“ sagði Gunnar Gunnarsson eftir leik. 

Gunnar var ánægður með varnarleik Hauka undir lok fyrri hálfleiks þar sem Valur skoraði ekki í tæplega sex mínútur.

„Það gaf okkur sjálfstraust að koma til baka undir lok fyrri hálfleiks, við fundum taktinn í vörninni og í seinni hálfleik var vörnin frábær ásamt Margréti Einarsdóttur í markinu.“

Annika Fridheim Petersen, markmaður Hauka, var í einangrun og gat ekki verið með liðinu í dag. Gunnar var ánægður með hvernig Margrét steig upp í hennar fjarveru.

„Margrét hefur verið frábær á æfingum og staðið sig vel í þau fáu skipti sem hún hefur fengið tækifæri. Það er virkilega gaman fyrir hana að koma inn og skila sigri,“ sagði Gunnar sem var ánægður með að leiknum hafi ekki verið frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×