Innlent

Byrjaði að leika á eldri árum og sló ræki­lega í gegn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
María Guðmundsdóttir, leikkona. 
María Guðmundsdóttir, leikkona.  Oddvar Hjartar

Hún var algjör þjóðargersemi, segja vinir Maríu Guðmundsdóttur leikkonu sem lést nýverið eftir veikindi. Henni er lýst sem brjálæðislega fyndinni og skemmtilegri, en á sama tíma auðmjúkri og hógværri.

María Guðmundsdóttir fæddist á Akureyri þann níunda nóvember 1935. Lengst af starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur en leiklistin átti alltaf hug hennar og hjarta. Leiklistarferillinn hófst hins vegar ekki af alvöru fyrr en María lét af störfum sem hjúkrunarfræðingur og fór á eftirlaun, en hún starfaði mikið fyrir Leikfélag Mosfellsbæjar og vann mikið með Steinda.

„Allt sem ég hef gert hef ég nánast gert með Maríu, svona eiginlega. Eins og ég hef sagt áður þá var hún svona leynivopnið mitt. Ég gerði ekkert nema hafa hana með,“ segir Steindi.

María sótti einnig spunanámskeið hjá Dóru Jóhannsdóttur, þar sem hún var elsti nemandinn frá upphafi. 

„En hún gaf þessum ungu ekkert eftir,“ segir Dóra. „Ég roðnaði alveg stundum þegar María var í spuna. Hún var svo óhrædd og hispurslaus, og svo þegar hún var ekki í spunanum þá var hún svo auðmjúk og þakklát, lét ekki mikið fyrir sér fara en á sviði var ekkert sem gat stoppað hana. Hún var bara svo ótrúlega fyndin.“

Dóra og Steindi segja það merkilegt að hugsa til þess að María hafi byrjað leiklistarferil sinn á eldri árum. Hins vegar sé aldrei of seint að gera það sem mann langar til.

„Margir halda að þeir séu of gamlir til að gera eitthvað, að þetta sé bara of mikill fíflagangur fyrir eldra fólk, en maður er aldrei of gamall til að hlæja og fíflast,“ segir Dóra.

María lést þann 14. desember síðastliðinn. Dóra og Steindi minnast vinkonu sinnar með mikilli hlýju.

„Ég er bara þakklátur fyrir allar stundirnar og ég held að við ættum öll að vera það. Hún var algjör þjóðargersemi,“ segir Steindi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×