Sport

Helgi: Sóknarleikurinn var einhæfur og hægur

Andri Már Eggertsson skrifar
Helgi Már Magnússon var svekktur eftir leik
Helgi Már Magnússon var svekktur eftir leik Vísir/Bára

KR tapaði fyrir Þór Þorlákshöfn 101-85. Þetta var þriðji tapleikur KR í röð og var Helgi Magnússon, þjálfari KR, svekktur eftir tap kvöldsins. 

„Annar leikhluti tapaði þessu fyrir okkur. Við vorum of linir sem gengur ekki gegn sterku liði Þórs.“

„Þór er þannig lið að þeir taka sín áhlaup. Við verðum að vera sterkari en það að láta ekki stuttan kafla fara með leikinn því það var nóg eftir af leiknum. Sóknarleikurinn okkar var einhæfur og hægur sem er aldrei jákvætt,“ sagði Helgi Magnússon svekktur með sóknarleik KR.

KR var sextán stigum undir í hálfleik og fengu síðan blauta tusku í andlitið þegar Luciano Nicolas Massarelli, leikmaður Þórs Þorlákshafnar,  setti niður þriggja stiga körfu.

„Einn þristur til eða frá á ekki að hafa áhrif á lið. Við náðum einfaldlega ekki að gera þetta að leik líkt og ég vonaðist til.“

Úrslit leiksins voru ráðin í seinni hálfleik og fengu ungu leikmenn KR mikilvægar mínútur í reynslubankann.

„Mínúturnar hjá ungu leikmönnunum var það jákvæðasta við leikinn. En það breytir engu máli hvort það séu ungir eða gamlir leikmenn, ég geri kröfu á að menn berjist,“ sagði Helgi Magnússon að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×