Umfjöllun: Skallagrímur - Fjölnir 70-105 | Fjölnir vann sinn fjórða leik í röð

Andri Már Eggertsson skrifar
Fjölnir vinnur hvern leikinn á fætur öðrum þessa dagana.
Fjölnir vinnur hvern leikinn á fætur öðrum þessa dagana. vísir/bára

Fjölnir vann sinn fjórða leik í röð þegar liðið mætti Skallagrími í Borgarnesi. Fjölnir fór illa með Skallagrím strax í fyrri hálfleik og var 34 stigum yfir í hálfleik. Fjölnir vann leikinn á endanum 70-105.

Fyrir leik munaði sextán stigum á liðunum og var það sjáanlegt strax í upphafi leiks að yfirburðir Fjölnis voru miklir.

Skallagrímur komst stigi yfir í blábyrjun leiks. Fjölnir svaraði með níu stigum í röð og eftir það var leikurinn aldrei spennandi. Margrét Ósk Einarsdóttir kom inn á um miðjan fyrsta leikhluta og gerði sex stig í röð og var þá allur meðbyr með Fjölni.

Fjölnir valtaði yfir Skallagrím í öðrum leikhluta. Skallagrímur tókst aðeins að gera 8 stig í öðrum leikhluta á meðan skoraði Fjölnir að vild.

Iva Bosnjak var stigahæst í liði Fjölnis í fyrri hálfleik með 14 stig og 7 fráköst. Fjölnir var með 34 stiga forystu í hálfleik 21-55 og úrslit leiksins gott sem ráðin.

Halldór Karl Þórsson, þjálfari Fjölnis, er einnig þjálfari meistaraflokks Fjölnis karla sem leikur í næst efstu deild. Halldór Karl þurfti að bregða sér í Hafnarfjörðinn í hálfleik þar sem karlaliðið átti leik gegn Haukum klukkan 20:30 í kvöld. Hákon Hjartarson, aðstoðarþjálfari Halldórs, stýrði kvennaliðinu einn í seinni hálfleik.

Skallagrímur spilaði góða sókn í þriðja leikhluta. Skallagrímur gerði 22 stig sem var stigi meira en liðið skoraði í fyrri hálfleik.

Skallagrímur spilaði þétta vörn í 4. leikhluta sem lét gestina hafa fyrir hlutunum. Þegar átta mínútur voru liðnar af leikhlutanum hafði Fjölnir skorað tólf stig og tíu af þeim komu af vítalínunni.

Þrátt fyrir að heimakonur hafi unnið 4. leikhluta með níu stigum vann Fjölnir leikinn með 35 stigum 70-105.

Af hverju vann Fjölnir?

Fjölnir var með mikla yfirburði á flest öllum sviðum leiksins. Það er mikil getumunur á þessum liðum. Sóknarleikur Skallagríms var afar slakur í fyrri hálfleik sem endaði með að heimakonur gerðu 21 stig og voru 34 stigum undir í hálfleik. 

Hverjar stóðu upp úr?

Dagný Lísa Davíðsdóttir endaði með tvöfalda tvennu. Dagný gerði 26 stig og tók 12 fráköst.  Allir tólf leikmenn Fjölnis komu við sögu í leiknum og skoruðu hið minnsta eitt stig í kvöld.  Aliyah Daija Mazyck gerði 6 stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Skallagríms var ekki merkilegur. Fjölnir endaði á að skora 105 stig sem er það mesta sem liðið hefur skorað á tímabilinu. Fjölnir tók 17 fráköstum meira en Skallagrímur og gaf einnig 15 fleiri stoðsendingar en heimakonur. 

Hvað gerist næst?

Miðvikudaginn eftir viku mætast Njarðvík og Skallagrímur klukkan 19:15. Á sama degi mætast Grindavík og Fjölnir klukkan 19:45.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira